Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Slagur í stúkunni og á parketinu
Föstudagur 9. nóvember 2007 kl. 11:35

Slagur í stúkunni og á parketinu

Stórleikur Keflavíkur og KR fer fram í Sláturhúsinu kl. 19:15 í kvöld þegar sjöttu umferð Iceland Express deildar karla í körfuknattleik lýkur. Von er á miklum fjölda í Sláturhúsið og harðri baráttu bæði á parketinu og í stúkunni. Keflavík og KR eiga einhverja ötulustu stuðningsmenn landsins og verður fróðlegt að sjá hvort liðið hafi betur í stuðningsbaráttunni.

 

Með sigri í kvöld geta Keflvíkingar enn á ný tekið forystuna í deildinni en Grindavík komst á toppinn í gær með Keflavík eftir sigur á Skallagrím. Keflvíkingar eiga þó leik kvöldsins til góða á Grindavík. Takist Íslandsmeisturum KR að landa sigri í kvöld jafna þeir Grindavík og Keflavík á toppnum og verða þá þrjú lið efst og jöfn.

 

KR hafði eftirminnilegan sigur gegn Njarðvík í síðasta leik með ótrúlegri sigurkörfu Helga Magnússonar utan við þriggja stiga línuna. Keflavík burstaði ÍR í Sláturhúsinu og hafa verið að leika fantavel að undanförnu.

 

Víkurfréttir náðu tali af helsta stuðningsmanni Keflavíkur, Joey Drummer, og ætlar hann að öskra sig hásan í kvöld: ,,Miðjan hjá KR er í góðri æfingu og verða án efa syngjandi sveittir í kvöld. Við í Trommusveitinni erum að taka þetta rólega eins og er og enn á eftir að sjá hverjir verða með í sveitinni í vetur. Þetta mallar samt hægt og örugglega áfram hjá okkur. Við ætlum okkur samt að vera í fantagír í kvöld gegn Íslandsmeisturunum. Það er föstudagskvöld framundan og tvö frábær lið að etja kappi og svo Tiesto framundan líka í kvöld. Hvað meira getur maður beðið um?” sagði Drummerinn við Víkurfréttir.

 

Staðan í deildinni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024