Slæm byrjun Grindvíkinga
Tap gegn KV í Laugardalnum
Grindvíkingar máttu sætta sig við ósigur gegn liði KV þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld á gervigrasinu í Laugardal. Leikurinn endaði 3-2 fyrir nýliðana úr Vesturbænum en staða Grindvíkinga er ekki vænleg að loknum fjórum umferðum, þar sem liðið hefur aðeins náð í þrjú stig.
Scott Ramsay kom Grindvíkingum yfir á 18. mínútu en KV jafnaði skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks. Þrjú mörk litu svo dagsins ljós í upphafi seinni hálfleiks á sjö mínútna kafla, fyrst skoruðu KV-menn, svo jafnaði Juraj Grizelj Grindvíkingum metin aftur með marki úr vítaspyrnu. Þremur mínútum síðar kom svo það sem reyndist sigurmark KV.
Eftir leikinn eru Grindvíkingar í 10. sæti deildarinnar með einn sigur eftir fjórar umferðir. Liðið var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í úrvalsdeild í fyrra og voru talsverðar væntingar gerðar til liðsins í ár.