Skyldusigur hjá toppliðinu Grindavík
Það voru ekki margir í stúkunni þegar lið Grindavíkur og Hauka voru kynnt til leiks í Röstinni í kvöld, eitthvað rættist þó úr mætingu þegar leið á leikinn en þó má spyrja afhverju það eru ekki fleiri á leik hjá toppliði deildarinnar sem í kvöld skellti Haukum örugglega, 98-74. Grindavík situr sem fastast á toppi deildarinnar með 12 stig eftir sex umferðir og er eina ósigraða lið deildarinnar.
Leikurinn byrjaði rólega, bæði lið að spila hörkuvörn ásamt stöku mistökum sem litu dagsins ljós, leikurinn var ekki mikið fyrir augað þennan fyrsta leikhluta, Grindvíkingar opnuðu þó leikinn á ,,alley up“ troðslu sem endaði hjá Ólafi Ólafssyni, ekki slæm byrjun þar! Staðan 18-16 fyrir heimamenn og leit allt út fyrir að hörku leikur væri í vændum.
Annar leikhluti var á allt öðru tempói, bæði lið að keyra mikið og hitta ágætlega þó Grindvíkingar sýnu betur en Haukar, Haukarnir börðust þó ágætlega en Grindvíkingar virtust geta skorað að vild enda skoruðu þeir 30 stig í þessum öðrum leikhluta staðan í hálfleik 48-37.
Grindvíkingar virtust ætla að valta yfir Haukana í seinni hálfleik, voru komnir 22 stigum yfir og virtust Haukarnir ekki hafa nein svör við Grindvíkingum hvorki sóknar- né varnalega, Grindvíkingar féllu þá í þá gryfu að verða værukærir eins og oft vill verða og Haukarnir gengu á lagið, skoruðu 11 stig í röð og stemmningin öll þeirra meigin. En þá var eins og Grindvíkingar ákváðu að spila aftur eins og menn og fóru að sigla hægt fram úr aftur.
Fjórði leikhluti var aldrei spennandi, ekki var spurning hvort liðið myndi vinna heldur hversu stórt Grindvíkingar myndu vinna, Grindvíkingar voru þó greinilega staðráðnir í að sýna ekkert kæruleysi aftur og hentu sér á alla lausa bolta á meðan Haukar virtust vera búnir að sætta sig við tap, lokatölur 98-74 Grindavík í vil.
Ívar Ásgrímsson var við stjórnartaumana hjá Haukum í kvöld en hann kvaðst ekki vera að taka við liðinu og því enn óljóst hver verði næsti þjálfari Hauka.
Atkvæðamestir heimamanna Watson 27 stig 5 stoðsendingar, Bullock 15 stig 9 fráköst, Ólafur Ólafsson 15 stig 8 fráköst Þórleifur Ólafsson 14 stig Páll Axel 11 stig 7 fráköst, Ómar Sævarsson 7 fráköst
Karfan.is