Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Mánudagur 17. mars 2003 kl. 15:26

„Skref fram á við að spila með Grindavík“ – segir Lee Sharpe í viðtali við Víkurfréttir

Eins og mönnum er kunnugt hefur Lee Sharpe, fyrrum leikmaður Manchester United ákveðið að slá til og leika með Grindvíkingum í Símadeildinni í sumar. Fyrr í vetur hlóu menn bara þegar þetta var í umræðunni en nú ættu þeir sömu að vera farnir að hætta að hlæja þar sem þetta er orðið að veruleika. Þrátt fyrir að kappinn sé ekki í sínu besta formi mun hann án efa styrkja lið Grindavíkur. Hver veit nema kappinn verði kominn í feikna form þegar tímabilið hefst og þá mega andstæðingar Grindvíkinga fara að vara sig. Víkurfréttir náðu tali af Lee Sharpe og spurðu hann hvernig honum litist á að leika á Íslandi í sumar, með liði í 2000 manna bæjarfélagi.

Hvernig lýst þér á að leika með Grindavík í sumar?
Ég er farinn að hlakka mikið til að spila með Grindavík enda fékk ég frábærar viðtökur þegar ég kom hingað á dögunum. Strákarnir í liðinu tóku mér vel og það verður gaman að spila með þeim. Bærinn er lítill en það er ekkert vandarmál.

Finnst þér þetta vera skref aftur á bak eftir að hafa leikið með liðum á borð við Manchester United og Leeds?
Nei, ég lít á þetta sem skref fram á við þar sem ég hef ekkert verið að spila neitt að undanförnu. Auðvitað er þetta lítill klúbbur miðað við þá sem ég hef leikið með en þetta mun verða mikil reynsla. Liðið er í UEFA keppninni og það spillti ekki fyrir ákvörðun minni.

Var einhver sérstök ástæða fyrir því að þú ákvaðst að slá til og leika með Grindavík í sumar?
Mér var tekið mjög vel þegar ég kom hingað. Allir voru mjög vinarlegir og vildu gera allt til að mér liði vel. Fólkið lét mig finnast ég vera velkomin og það hjálpaði mikið til. Það verður líka gaman að spila fótbolta í sumar þar sem ég hef ekki leikið í nokkurn tíma. Ég ætla mér að standa mig og komast í gott form.

Hvað sögðu vinirnir og fjölskyldan um að þú færir til Íslands?
Þeim fannst þetta auðvitað nokkuð skrítið í fyrstu en þau voru annars mjög jákvæð. Þau sögðu að ég ætti ekki að hika við að fara þar sem þetta yrði góð reynsla og kæmi sér vel fyrir mig.

Hvað með blöðin í Bretlandi?
Þau vita þetta ekki enn. Fólkið á Íslandi er það eina sem veit af þessu fyrir utan mína nánustu.

En hvernig líkaði þér á Íslandi?
Þetta var mjög fínt. Það var svolítið kalt á meðan ég var hérna og kaldara en ég á að venjast. Grindvíkingarnir lofuðu því þó að það yrði heitara í sumar, þannig að það er í góðu lagi.

Hvað finnst þér um íslenskan fótbolta?
Ég veit auðvitað lítið um hann þar sem ég mætti einungis á æfingu með Grindavík. En miðað við hana þá er hann nokkuð góður og það eru nokkrir góðir strákar hérna sem geta spjarað sig. Ég hef auðvitað séð til Eiðs Guðjónsen og hinna leikmannanna sem leika á Englandi en ég þekki þá þó ekki mikið. Ég hef aldrei leikið á móti þeim held ég.

Jæja að lokum, hvenær fáum við að sjá þig í leik með Grindavík?
Ég fer með liðinu á æfingamót á Spáni í þessum mánuði. Ég fer svo heim til Englands aftur til að klára mín mál þar og svo býst ég við því að mæta á mína fyrstu æfingu með liðinu í byrjun maí. Ég hef ekki skrifað undir neinn samning enn þá en ég mun væntanlega gera það á Spáni.

Smellið hér til að sjá fleiri myndir!!
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024