Skotsýning Keflavíkur kaffærði Hauka
Keflavík setti niður 14 af 33 þriggja stiga skotum sínum gegn Haukum í toppslag Iceland Express deildar kvenna í körfuknattleik í kvöld. Eftir sigurinn eru Keflvíkingar einir á toppi deildarinnar með 18 stig og eiga enn einn leik til góða á Íslandsmeistara Hauka. Fimm leikmenn í Keflavíkurliðinu gerðu 10 stig eða meira í leiknum í kvöld og var TaKesha Watson þeirra atkvæðamest með 21 stig og Margrét Kara Sturludóttir með 20 stig. Hjá Haukum setti Kiera Hardy niður 27 stig og 17 af þeim komu í síðari hálfleik.
Keflavík setti tóninn strax í upphafi leiks og leiddi 25-14 að loknum fyrsta leikhluta en Haukar náðu að minnka muninn niður í eitt stig í öðrum leikhluta en þá tóku Keflvíkingar aftur á rás. Tvær góðar þriggja stiga körfur hjá Keflavík á síðustu 20 sekúndum annars leikhluta jók muninn í 54-38 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Þær Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir og Margrét Kara Sturludóttir voru báðar komnar með þrjár villur í liði Keflavíkur í hálfleik á meðan Haukar áttu ekki við nein villuvandræði að glíma.
Yngvi Gunnlagusson þjálfari Hauka hefur náð að blása anda í sína liðsmenn í búningsklefanum því Haukar gerðu fyrstu átta stigin í síðari hálfleik og minnkuðu muninn í 54-46 þar sem Kiera Hardy fór á kostum. Staðan var þó 73-61 Keflavík í vil fyrir lokaleikhlutann.
Keflavíkurliðið hleypti Haukum aldrei nærri og juku muninn í fjórða leikhluta og fóru að lokum með 21 stigs sigur af hólmi, 100-79. Allt annað var að sjá til Keflavíkur sem í kvöld lék mun betri bolta en gegn Grindavík á dögunum.
TaKesha Watson var ekki fjarri því að landa þrennu með 21 stig, 11 stoðsendingar og 7 fráköst en hún stal líka fimm boltum. Margrét Kara var eins og áður greinir með 20 stig og tók auk þess 9 fráköst. Þá átti Rannveig Kristín Randversdóttir ljómandi góðan dag með Keflavík, gerði 17 stig og stalla hennar og fyrrum leikmaður Hauka, Pálína Gunnlaugsdóttir gerði 16 stig og tók 7 fráköst.
Kiera Hardy dró vagninn í Haukasókninni með 27 stig og 6 fráköst en henni næst í Haukaliðinu var Kristrún Sigurjónsdóttir með 15 stig, 7 stoðsendingar og 5 fráköst.
VF-Myndir/