Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Skotsýning Keflavíkur að Ásvöllum
Mánudagur 17. mars 2008 kl. 22:04

Skotsýning Keflavíkur að Ásvöllum

Mögnuð frammistaða Keflavíkur skilaði þeim 85-96 sigri gegn Haukum í öðrum leik liðanna í undanúrslitum úrslitakeppninnar í Iceland Express deild kvenna. Leikurinn fór fram að Ásvöllum þar sem Keflvíkingar hafa átt miður góðu gengi að fagna síðustu tímabil en í kvöld léku Keflvíkingar við hvern sinn fingur og skutu gestgjafa sína í kaf. Haukar voru sterkari framan af leik og leiddu 50-48 í hálfleik en Keflvíkingar léku frábærlega í síðari hálfleik og nokkuð fát kom á sóknarleik Hauka sem áttu fínar rispur en engan veginn nægilega góðar til að gera atlögu að sigrinum í kvöld.
 
Myndarleg skotsýning fór af stað strax í upphafi leiks og snemma jafnaði Kristrún Sigurjónsdóttir leikinn fyrir Hauka í 12-12 með þriggja stiga körfu. Á sama tíma var Margrét Kara Sturludóttir einum of áköf í Keflavíkurvörninni og fékk á örskotsstundu þrjár villur og sást lítið eftir það í leiknum. Hart var barist frá fyrstu mínútu og Unnur Tara Jónsdóttir var að vinna vel í frákastabaráttunni fyrir Hauka en Keflavík leiddi 22-27 eftir fyrsta leikhluta með góðum endaspretti.
 
Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir kom snemma af bekknum inn í lið Keflavíkur og barðist vel en snemma í öðrum leikhluta fór hún af velli og við það virtust Haukar tvíeflast og gerðu 10 stig í röð án þess að Keflvíkingar næðu að svara og staðan orðin 32-30 Haukum í vil. Susanne Biemer og Birna Valgarðsdóttir voru frískar í Keflavíkurliðinu ásamt TaKeshu Watson en Victoria Crawford bar uppi sóknarleik Hauka sem leiddu 50-48 í hálfleik. Eins og sést á hálfleikstölunum fór ekki mikið fyrir varnarleiknum að þessu sinni.
 
Framan af þriðja leikhluta stefndi allt í heljarinnar einvígi þegar Kristrún minnkaði muninn fyrir Hauka í 59-62 með þriggja stiga körfu en þá hrukku Keflvíkingar í gang. Með þriggja stiga körfu frá Birnu Valgarðsdóttur komust gestirnir í 63-72 og á mögnuðum 15 sekúndum undir lok leikhlutans sjóðhitnaði undir gestunum. Birna setti niður þristinn þegar 15 sekúndur voru eftir, Haukar héldu í sókn en misstu boltann og Watson brunaði upp völlinn og gerði aðra þriggja stiga körfu fyrir Keflavík og ætlaði allt um koll að keyra í látunum og staðan orðin 63-75 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Snemma í fjórða leikhluta bar á nokkurri örvæntingu í leik Hauka sem voru oftast ekki meira en 10 stigum undir í leiknum og því engin ástæða til að grípa til illa valinna þriggja stiga skota en það gerðist nú samt hjá Íslandsmeisturunum. Þrátt fyrir að þær Ingibjörg og Kara hefðu lent í villuvandræðum hjá Keflavík tókst gestunum að ljúka leiknum af miklum krafti.
 
Eins og fyrr greinir voru lokatölur leiksins 85-96 Keflavík í vil en gestirnir gerðu 14 þriggja stiga körfur í leiknum og það reyndist Haukum um megn. Aftur fór Birna Valgarðsdóttir á kostum hjá Keflavík og nú með 23 stig, 5 stoðsendingar og 3 varin skot. Stigahæst var TaKesha Watson með 34 stig, 10 fráköst og 5 stolna bolta.
 
Victoria Crawford var atkvæðamest í liði Hauka með 31 stig og 8 stoðsendingar en Crawford gerði 24 stig í fyrri hálfleik og hafði því nokkuð hægt um sig í þeim síðari. Næst Crawford var fyrirliðin Kristrún Sigurjónsdóttir með 13 stig, 5 stoðsendingar og 3 fráköst.
 
Keflvíkingar hafa pálmann í höndunum fyrir þriðju viðureign liðanna á miðvikudag. Leikurinn fer fram í Toyotahöllinni í Keflavík kl. 19:15 og hafi Keflavík sigur í þeim leik eru þær komnar áfram í úrslitin.
 
VF-Mynd/ [email protected]TaKesha Watson sækir að körfu Hauka að Ásvöllum í kvöld.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024