Skotáhugamenn keppa í skotfimi
Það er fleira í boði en hinar hefðbundnu íþróttagreinar hér á Suðurnesjum, hjá Keflavík er skotdeild sem er mjög virk.
Deildin stóð fyrir opnu móti laugardaginn 26 júlí sl. Þá kepptu alls 8 keppendur í 3 flokkum.
Hörður frá SÍH skaut 25 dúfur af 25 í hring nr. 2, og var þar að skjóta 25 í fyrsta skipti. Samkvæmt hefð kastaði hann húfunni sinni í loftið og skaut hana.
Á heimasíðu félagsins kemur fram að mikið fjör var á mótinu og er ætlunin að spýta í lófana og halda fleiri mót í náinni framtíð, bæði opin og lokuð fyrir félagsmenn.
Æfingasvæði og aðstaða deildarinnar er í heiðinni rétt hjá Höfnum c.a. 8 km frá Keflavík. Félagsmenn skotdeildarinnar eru um 100 en ekki allir virkir.
Skotdeild Keflavíkur á einn glæsilegasta skeetvöll á landinu, einnig er trap og doubletrapvöllurinn á svæðinu. Ágætis aðstaða er fyrir riffla og skammbyssur.
Völlurinn var byggður fyrir Smáþjóðaleikana sem fram fóru hér á landi 6.júní 1997. Reynt er að opna völlinn í mars eða apríl og geta menn þá byrjað að skjóta leirdúfu.
Haldnar eru reglulegar æfingar á sumrin, þá er hægt að koma á svæðið, fá kaffi og leiðsögn hjá reyndum mönnum.
Skotdeild Keflavíkur er deild innan Keflavík, íþrótta- og ungmennafélags. Formaður deildarinnar er Bjarni Sigurðsson og varaformaður Ásgeir Svan.
Nánari upplýsingar eru á heimasíðu deildarinnar.