Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Skoski markvarðahrellirinn Kenneth Hogg
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 12. september 2020 kl. 09:31

Skoski markvarðahrellirinn Kenneth Hogg

„Ég flutti hingað 2016 frá Bandaríkjunum en er auðvitað frá Skotlandi,“ segir Kenneth. „Ég fór til náms í Bandaríkjunum og lék þar fótbolta á íþróttastyrk. Ég útskrifaðist 2014 með gráður í stærðfræði og efnaverkfræði og eftir háskólann gerðist ég kennari þar úti, kenndi stærðfræði á framhaldsskólastigi. Ég starfaði við það í tvö ár og spilaði fótbolta samhliða vinnu, bæði innan- og utanhúss.“

Í fyrsta sinn einn í annari heimsálfu

„Eftir að ég kom hingað var ég fyrst á Sauðárkróki og lék með Tindastóli í eitt og hálf tímabil, þá flutti ég hingað til Njarðvíkur og hef verið hér síðan.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

– Er engin fjölskylda með þér, ertu einn?

„Já, ég kom hingað einn. Fjölskylda mín er öll í Skotlandi fyrir utan bróðir minn sem er á Englandi, hann er í hernum svo hann er eiginlega út um allt. Ég bjó einn í Bandaríkjunum í fimm ár.“

– Þannig að þú ert einhleypur?

„Já ... sorglega,“ segir Kenneth og hlær. „Það eru skoskir strákar í liðinu svo það er fínt finnst mér, við höfum sama bakgrunn og komum frá svipuðum slóðum í Skotlandi.“

– Hvað varstu gamall þegar þú fórst til Bandaríkjanna?

„Ég var nítján ára gamall. Fyrst fórum við fjölskyldan í frí til Florida, svo kom ég heim í viku áður en ég fór í skóla. Það reyndi svolítið á og var skrýtið, ég hafði verið í háskóla í Skotlandi og skólinn var skammt frá þar sem ég átti heima svo ég bjó ennþá heima. Þannig að í fyrsta skipti sem ég bjó að heiman þá flutti ég í aðra heimsálfu, það var ekki eins og ég væri að flytja í hálftíma fjarlægt frá húsinu hennar mömmu svo þetta voru miklar breytingar en ég myndi mæla með þessu við alla. Ef maður kemst út á skólastyrk er námið ókeypis og allur aðbúnaður til fótboltaiðkunar er ótrúlegur þarna.

Ég átti nú ekki von á að enda uppi á Íslandi en á þeim tíma sem ég kláraði námið í Bandaríkjunum var ég í sambandi og það átti þátt í því að ég ílengdist þar. Á endanum rann landvistarleyfið mitt út og þótt skólinn hafi viljað halda mér áfram þá var ég búinn að fá nóg af því að kenna. Ég hafði gaman af kennslunni en það er þreytandi að kenna áhugalausum krökkum stærðfræði, ég veit ekki hvort þú hafir prófað það? Að reyna að kenna þrjátíu krökkum, sem vilja ekki læra, stærfræði, það dregur úr manni allan vind.

Donni  (Halldór Jón Sigurðsson) hafði sett sig í samband við mig og reynt að fá mig til liðs við Tindastól svo ég sló til að prófaði – á þeim tíma hélt ég að ég væri að koma hingað í þrjá mánuði áður en ég héldi heim til Skotlands en það hefur dregist á langinn. Ég kom beint til Íslands og lék reyndar minn fyrsta leik hérna, í Sandgerði. Ég hafði ekki einu sinni hitt liðið, lenti bara í Keflavík og beið eftir þeim. Það var skrýtið.“

– Þú hefur átt góðu gengi að fagna í sumar, ert markahæstur í deildinni.

„Eins og er, já. Þetta er búið að vera gott tímabilið fyrir okkur, við erum eitt af betri liðunum í deildinni og ég held að við eigum góða möguleika á að vinna okkur upp um deild. Við eigum „þægilegra“ leikjaplan en hin liðin sem er ekkert endilega betra. Okkur hefur gengið ágætlega á móti betri liðunum en verið að tapa stigum gegn liðum sem við ættum að vinna. Við höfum trú á því að við komumst upp.

Það er vissulega gaman að vera búinn að skora mörg mörk, ég er aftur farinn að spila sem sóknarmaður en hef verið að spila hinar og þessar stöður – í ár hef ég stundum verið á kantinum en það er gott að vera kominn aftur í sóknina, þar hef ég lengst af spilað. Þegar við í Njarðvík unnum okkur upp um deild þá lék ég í sókninni.“

Kenneth lék með yngri flokkum St. Mirren og í stuttan tíma með Partick Thistle í Glasgow. „Síðan fór ég að hugsa mér til hreyfings því ungir leikmenn í Skotlandi fá ekki greidd há laun en á sama tíma er ætlast til að þeir æfi og séu til taks alla daga.“

– Þú ert í vinnu hérna samhliða fótboltanum, er það ekki?

„Jú, ég er í fullu starfi í Kópavogi. Þetta er fyrirtæki í tæknigeiranum, sem framleiðir tæki sem mæla hitastig í sendingum. Það eru aðallega fyrirtæki í lyfjaiðnaðinum sem við þjónustum. Ég hef unnið þar síðan í febrúar en áður var ég á bílaleigu upp á flugvelli.

Þegar ég kom hingað fyrst þá vann ég ekkert, þá bjó ég á Sauðárkróki sem er mjög lítill bær og mér fór að leiðast mjög fljótlega. Þá hugsaði ég með mér að ég gæti alveg eins fundið mér eitthvað að gera, aðallega til að koma í veg fyrir leiða. Fyrst var ég ekkert á því að vinna en núna nýt ég þess, það heldur mér uppteknum – sérstaklega yfir veturinn.“

– Ferðu ekkert heim yfir vetrartímann?

„Fyrstu tvö árin fór ég heim milli október og febrúar. Síðasta ár var ég hérna allan veturinn að undanskilinni einni viku, svo heimsótti fjölskylda mín mig í viku. Núna í ár verð ég hérna í allan vetur fyrir utan jólin, þá fer ég til Skotlands. Það er aðallega út af vinnunni, þeir þurfa á mér að halda þar. Námið nýtist mér í vinnunni að hluta til en það er margt sem maður lærir ekki í skóla og þarf að tileinka sér á vinnumarkaðnum – eins og í hverju öðru starfi.“

Kenneth með mömmu sinni og systkinum.

Kemur frá „litlum“ bæ í Skotlandi

„Ég kem frá Irvine, sem er á suð-vesturströnd Skotlands. Það er lítill bær á skoskan mælikvarða en væri stór á Íslandi, þar búa um þrjátíu þúsund manns. Foreldrar mínir voru frá Glasgow en við fluttum þangað vegna vinnu pabba míns, hann var einnig verkfræðingur og vann hjá fyrirtækinu sem skipulagði bæinn. Mamma var kennari svo hún gat unnið hvar sem var og því flutti fjölskyldan þangað, þar ólst ég upp. Ég á yngri systur og tvo eldri bræður, svo auðvitað mömmu en faðir minn lést þegar ég var tíu ára gamall. Ég er mjög náinn mömmu minni, hún hefur gert mikið fyrir okkur systkinin.“

– Verandi skoskur hlýturðu að eiga þitt eigið „tartan“ (litur og munstur á „kilti“, skosku pilsi).

„Eiginlega ekki, fjölskyldunafn mitt á ekki sitt eigið „tartan“ en ég á „kilt“ sem er í litum liðsins míns, ég styð Glasgow Rangers og það á sitt eigið „tartan“.

Annars myndi ég yfirleitt ekki ganga í „kilti“, ég vinn með öðrum Skota og hann spurði hvort ég ætti „kilt“ – sem ég á en ekki hér á Íslandi. „Af hverju ætti ég að eiga svoleiðis á Íslandi?“ Þá sagðist hann eiga fjögur hérna sem hann klæðist gjarnan. „Til hvers?,“ spurði ég. „Til að labba niður Laugarveginn?“ Hann svaraði því játandi og ég sagði hann ruglaðan. Ég myndi bara nota „kilt“ við hátíðleg tilefni eða á landsleikjum. Maður klæðist „kilti“ á landsleikjum.“

Algerir fávitar!

Talið berst að ensku landsliðsmönnunum Mason Greenwood og Phil Foden sem voru staðnir að því að brjóta sóttvarnareglur þegar þeir hleyptu íslenskum stelpum upp á hótelherbergi sitt. Fyrir vikið hefur þeim verið vísað úr landsliðshópi Englendinga og sendir heim með skottið milli lappanna.

„Hugsa sér dómgreindarleysið, þeir eru í sínu fyrsta landsliðsverkefni og haga sér svona. Algerir fávitar! – en þeir eru náttúrlega enskir svo við hverju er að búast?,“ segir Kenneth og hlær. Skotar bera svo sem engan hlýhug til Englendinga og sennilega hafa fáir fagnað jafn heitt og innilega eins og Skotar þegar Ísland sendi Englendinga heim eftir leik liðanna í sextán liða úrslitum Evrópumótsins 2016.

Hefur trú á að Njarðvík komist upp

„Ég hef fulla trú og vona að við leikum í Lengjudeildinni á næsta ári, við höfum leikmennina til þess en vorum óheppnir í upphafi tímabilsins með meiðsli. Núna þurfum við bara bara að einbeita okkur að okkar leik, það er það eina sem við getum gert. Við erum að færast upp töfluna og það á eftir að halda áfram þannig, það eru þessi þrjú lið sem verða í baráttunni [Njarðvík, Selfoss og Kórdrengir]. Þar með er Kenneth farinn að horfa á landsleik Skota gegn Tékkum ásamt landa sínum og fyrirliða Njarðvíkinga, Marc McAusland.