Skoraði tvö mörk og græddi stórfé af liðsfélögunum
Aldrei skorað tvö í leik - Handsalað daginn fyrir HK leikinn
Keflvíkingurinn Einar Orri Einarsson er ekki þekktur fyrir að skora mikið af mörkum en hann bauð upp á tvö mörk í sama leiknum á dögunum í 3-2 sigri gegn HK í 1. deildinni í fótbolta. Mörkin voru einstaklega ánægjuleg fyrir miðjumanninn harðskeytta enda hafði hann til mikils að vinna auk þess að krækja í stig á töfluna fyrir Keflvíkinga. Degi fyrir markið hafði hann gert veðmál við liðsfélaga sína að verðmæti 100 þúsund krónur.
Einar Orri segir að veðmálið hafi komið til vegna frægs veðmáls í efstu deild sem leikmenn Breiðabliks gerðu með sér. Þannig var að Finni Orra Margeirssyni gekk illa að skora í fyrstu leikjum sínum í efstu deild. Reyndari leikmaður í liðinu gerði við hann veðmál þar sem Finnur fengi 100 leiki til þess að skora eitt mark í efstu deild. Upphæðin byrjaði í 100 þúsund krónum og minnkaði með hverjum leiknum. Eftir að 100 leikjum lyki færi Finnur að skulda ef hann skoraði ekki. „Ég held að Finnur hafi keypt sig út úr veðmálinu þegar hann fór að spila erlendis, þá var hann kominn með held ég 130 leiki án þess að skora. Við félagarnir Magnús Þórir, Magnús Sverrir og Halli Gumm vorum eitthvað að ræða þetta veðmál á dögunum. Þá segir Halli að hann sé tilbúinn að gera við mig samning. Hann bauð mér 50 leiki til þess að ná tveimur mörkum í sama leiknum.“
Upphæðin byrjaði í 100 þúsund en átti að minnka um tvö þúsund með hverjum leiknum sem leið og að lokum færi Einar að borga ef mörkin tvö kæmu ekki. „Það var svo daginn fyrir leik sem þeir þrír komu saman gegn mér inn í klefa og veðmálið var handsalað. Þeir ætluðu að ávaxta vel næstu þrjú árin eða svo. Það var daginn fyrir HK leikinn.“ Einar gerði sér svo lítið fyrir og kláraði dæmið bara strax og skoraði tvö skallamörk sem er afrek út af fyrir sig.
Tilbúinn að setjast aftur að samningsborðinu
„Ég er búinn að vera mjög góður með mig síðan og segja þeim að ég sé hugsanlega tilbúinn að setjast fljótlega aftur að samningsborðinu,“ segir Einar léttur. Hann segir að greiðslur hafi að mestu borist enda séu þetta menn sem standa við orð sín. Einar segist ekki hafa verið að hugsa um þetta á vellinum en hafi þó áttað sig á þessu þegar Haraldur fyrirliði kom skellihlæjandi að honum eftir að hann skoraði seinna mark sitt í leiknum. „Hann hefur sjálfsagt verið sáttastur við að við værum að ná okkur í þrjá punkta. Þá kveiki ég á þessu og verð ennþá sáttari fyrir vikið. Ég hef nú bara aldrei skorað tvö mörk. Ég var nú bara í hálfgerðu móki þarna í seinna markinu. Ég er alveg til í að upplifa þetta aftur en veit ekki alveg hvort það gerist.“
Einar Orri segir að búast megi við Keflvíkingum sterkari nú í síðari hluta móts. Nú séu þeir búnir að kynnast öllum liðum deildarinnar og hafi styrkt sig með komu tveggja skoskra leikmanna.