Skoraði með þrumufleyg af 40 metra færi!
Þrátt fyrir að lenda tveimur mörkum undir náði lið Grindavíkur að jafna leikinn þegar það mætti Þór/KA í fyrstu umferð Íslandsmóts kvenna í knattspyrnu. Úrslit urðu 2-2 en leikurinn fór í fram í Grindavík í gær við góða mætingu áhorfenda. Dagmar Þráinsdóttir var hetja Grindavíkinga í gær en hún skoraði bæði mörkin með tilþrifum.
Aðstæður voru nokkuð erfiðar vegna stífrar norðanáttar. Grindavík varð fyrir áfalli eftir 20 mínútuna leik þegar markvörður liðsins, Rannveig Guðmundsdóttir, fékk höfuðhögg og þurfti að yfirgefa völlinn. Útileikmaðurinn Ólöf Daðey Pálsdóttir, sem er nýbyrjuð að æfa að ný eftir nokkur hlé, skellti sér í markið og stóð sig vel.
Þór/KA fékk gefins vítaspyrnu í upphafi leiks og bætti svo við öðru marki. Útlitið var því fremur dökkt fyrir Grindavík. En Dagmar Þráinsdóttir skoraði tvö glæsileg mörk beint úr aukaspyrnum með fimm mínútna millibili í seinni hálfleik og tryggði Grindavík eitt stig. Fyrra markið var ævintýralegt af rúmlega 40 metra færi, nokkuð sem sjaldan sést.
Efri mynd/www.grindavik.is - Lið Grindavíkur er til alls líklegt í sumar.
Neðri mynd: Dagmar Þráinsdóttir skoraði bæði mörk Grindavíkur í gær.