Skora á íþróttaiðkendur í Reykjanesbæ að hlaupa fyrir Ölla
-Minningar- og styrktarsjóður Ölla auglýsir eftir hlaupurum til að safna áheitum fyrir sjóðinn
Í ár líkt og í fyrra geta þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka safnað áheitum fyrir Minningar- og styrktarsjóð Ölla en sjóðurinn var stofnaður haustið 2013 í minningu körfuboltakappans Örlygs Arons Sturlusonar og hefur það að markmiði að styrkja börn á Íslandi til íþróttaiðkunar sem búa við bágan fjárhag forræðismanna. Sjóðurinn skorar á alla þá sem vettlingi geta valdið, og þá sér í lagi íþróttaiðkendur - og áhugafólk að hlaupa fyrir sjóðinn í ár og láta þannig gott af sér leiða.
„Áheitasöfnunin er eins og er okkar helsta fjáröflun og hefur gert okkur kleift að styrkja 50 börn og ungmenni á landinu til íþróttaiðkunar frá stofnun sjóðsins. En við erum rétt að byrja og við finnum að þörfin er mikil og því erum við að leita að hlaupurum til að hlaupa fyrir okkur í ár. Í fyrra söfnuðum við tæpri milljón og styrktum Velferðarsjóð Suðurnesja um eina milljón króna í kjölfarið og var öll sú upphæð merkt íþróttaiðkun barna. Áður höfðum við styrkt Fjölskylduhjálp Íslands einnig um eina milljón og svo er sjóðurinn sjálfur að styrkja börn beint”, segir María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri sjóðsins.
Í fyrra var Minningarsjóðurinn með aðstöðu í Safnaðarheimili Fríkirkunnar í Reykjavík að Laufásvegi 13 þar sem boðið var upp á myndatöku, veitingar og fjör að hlaupi loknu fyrir hlauparana og skapaðist afar góð stemning þar. Sami háttur verður hafður á í ár og eru allir þeir sem hlaupa fyrir sjóðinn og þeirra fjölskyldur hvattir til að mæta þangað.
„Við hvetjum fólk til að skrá sig í hlaupið og fara svo inn á hlaupastyrkur.is til að safna áheitum fyrir sjóðinn og svo vonumst við til að sjá sem flesta í góðu skapi laugardaginn 22. ágúst. Einnig viljum við benda á Facebook-síðuna okkar, Minningarsjóður Ölla, og sérstakan viðburð sem við höfum búið til á Facebook „Hlaupum fyrir Ölla“ segir María að lokum.
Hlekkir:
Sjóðurinn á hlaupastyrkur.is: http://www.hlaupastyrkur.is/
Viðburðurinn á FB: https://www.facebook.com/