Skólahreystikrökkum Heiðarskóla fagnað
Nemendur og kennarar í Heiðarskóla fögnuðu liðsfólki sínu í Skólahreysti í frímínútum í morgun en skólinn tryggði sér sigur í keppninni sl. föstudagskvöld.
Sóley Halla Þórhallsdóttir, skólastjóri hélt stutta ræðu á svölum skólans og óskaði öllum til hamingju en auk þess fengu krakkarnir í liðinu blómvönd frá skólanum.
Aðrir nemendur og kennarar hrópuðu ferfalt húrra fyrir Skólahreystiskrökkunum en þau Katla Rún Garðarsdóttir, Elma Rósný Arnardóttir, Andri Már Ingvarsson og Arnór Elí Guðjónsson skipuðu sigurliðið í ár. Þau æfðu vel í vetur undir stjórn Helenu Jónsdóttur, íþróttakennara. Þegar þau voru spurð hvað hefði verið sætast við sigurinn var svarið: „Það var sætast að vinna Holtaskóla,“ sögðu þau og hlógu dátt en félagar þeirra úr Holtaskóla unnu þrjú árin þar á undan.
Sigursæl og brosandi Skólahreystiskrakkar Heiðarskóla 2014 með Sóleyju Höllu skólastjóra og Helenu þjálfara. Allir nemendur fögnuðu og hylltu sigurliðið fyrir utan skólann með ferföldu húrrahrópi.