Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Skítugur sokkur Ómars
Laugardagur 5. október 2013 kl. 10:22

Skítugur sokkur Ómars

Markvörðurinn dregur fram pennann

Ómar Jóhannsson, markvörður og fyrrum pistlahöfundur Víkurfrétta, skrifaði í gær skemmtilegan pistil fyrir vefsíðuna fotbolti.net. Þar fer Ómar yfir nýafstaðið tímabil í fótboltanum frá sjónarhóli Keflvíkinga. Hér að neðan má sjá nokkur brot úr pistli Ómars sem jafnan hefur þótt lipur með pennann.

„Áður en mótið hófst fóru að sjálfsögðu spákerlingarnar af stað en kom það okkur gríðarlega á óvart að vera ekki spáð titlinum. Grenjuðum við hátt og snjallt allir í kór langt fram eftir sumri yfir þessari hræðilegu spá sem auðvitað átti ekki við nein rök að styðjast. Eftir glæsilega spilamennsku í allt sumar tróðum við svo loks skítugasta sokk landsins upp í kerlingarnar og björguðum okkur endanlega frá falli í næst síðustu umferð. Við nutum svo lífsins það sem eftir var móts og spiluðum pressulausir til tilbreytingar, einn leik. Einn maður blés þó á allar hrakspár sumarsins sem að Keflavík snéru. Már Gunnarsson tók við keflinu sem Drummerinn hafði lagt frá sér fyrir einhverju síðan og blés ekki bara okkur leikmönnum eldmóð í brjóst heldur flest öllum sem honum kynntust í sumar.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ómar rifjaði upp þegar Keflvíkingar voru strandaglópar í Vestmannaeyjum í þrjá daga.

„Þrátt fyrir að alltaf sé sól og blíða í Keflavík verður ekki það sama sagt um önnur krummaskuð landsins. Við skelltum okkur í tæpa viku til Vestmannaeyja og eftir að hafa barist við rokið í 90 mínútur skoðuðum við bæinn í 3 daga. Seinna um sumarið fórum við svo rúnt á Blönduós og til baka. Héldum við leikmenn að við værum að fara spila leik á Akureyri en kom í ljós að við vorum einungis tilraunadýr fyrir Geysi sem var að prufukeyra nýja rútu. Við fórum bara seinna á Akureyri, það var fínt. Höfum við Keflvíkingar lagt það fyrir hjá KSÍ að Íslandsmótið 2014 verði spilað að öllu leiti í Keflavík til að tryggja að engum leik þurfi að fresta.“

Ómar er fenginn því að vera áfram í deild þeirra bestu og hann er nokkuð bjartsýnn hvað varðar framhaldið hjá Keflvíkingum.

„Annars er bara enn eitt sumarið búið og eftir stendur að við erum ennþá í efstu deild. Margir gerðu sér grein fyrir því að sumarið gæti orðið erfitt í Sunny (já við líka). Ef litið er á stígandann í liðinu fram eftir sumri þarf ekki að örvænta í Keflavík. Mikil vinna er fram undan en öðruvísi næst ekki árangur. Eitt er ljóst að mikið verður lagt á sig til þess að gera betur á næsta ári. Hvort það tekst verður tíminn að leiða í ljós en fólkið er til staðar, bæði innan og utan vallar, til þess að gera flotta hluti í Keflavík.“

Sjá pistil í heild sinni.