Skiba fór á kostum í burstleik Grindavíkur
Grindavík tók á móti Fjölni í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi þar sem Joanna Skiba fór á kostum í liði Grindavíkur er hún setti niður 38 stig fyrir gular. Auk vasklegrar framgöngu í stigaskorinu gaf Skiba einnig 14 stoðsendingar í leiknum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 26-13 Grindavík í vil og snemma varð ljóst í hvað stefndi.
Lokatölur leiksins voru 108-61 Grindvíkingum í vil sem nú eru í 2. sæti deildarinnar með 30 stig en Keflavík er á toppnum með 32 stig. Tiffany Roberson var næst Skibu í stigaskorinu með 16 stig og 10 fráköst og Ingibjörg Jakobsdóttir gerði 14 stig. Hjá Fjölni var Slavica Dimovska atkvæðamest með 15 stig.
VF-Mynd/ Þorsteinn G. Kristjánsson – Íris Sverrisdóttir sækir að Fjölnisvörninni í Röstinni í Gærkvöldi.