Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Laugardagur 6. febrúar 1999 kl. 13:20

SKEMMTILEGASTI ÚRSLITALEIKURINN Í LANGAN TÍMA!

Ég geri ráð fyrir einum skemmtilegasta úrslitaleik í Höllinni í langan tíma. Bæði liðin leika hraðan körfuknattleik, eru með margar skyttur og erlenda leikmenn sem sýna frábær tilþrif. Liðin geta sem sagt boðið áhorfendum upp á allt sem þeir óska sér og vonandi láta áhorfendur ekki sitt eftir liggja“, segir Jón Kr. Gíslason, landsliðsþjálfari Íslands. Ef taka á mið af leikjum liðanna í DHL-deildinni, þá hafa Njarðvíkingar unnið 3 hálfleiki af fjórum. Njarðvíkingar burstuðu fyrri leik liðanna, en síðan hafa Keflvíkingar ekki tapað leik. En eins og allir vita, þá skipta þessir leikir ekki miklu máli þegar í bikarslaginn er komið, né heldur staða liðanna í deildinni. Að mínu mati eru þessi lið þau bestu á landinu, staða þeirra segir allt sem segja þarf. Erlendir leikmenn beggja liða eiga stóran þátt í velgengni þeirra í vetur og hefur Damon Johnsson verið að leika stórkostlega upp á síðkastið. Þeirra frammistaða á laugardaginn getur ráðið úrslitum leiksins, vilji þeirra til að taka af skarið þegar illa gengur skiptir sköpum. Njarðvíkingar hafa á að skipa hávaxnara liði, en ég er ekki viss um að það nýtist þeim að ráði í sóknarleiknum, leikur þeirra byggist ekki mikið á því að koma knettinum inní teig, en þó má gera ráð fyrir því að ef Hermann fær lítinn varnarmann á sig, muni hann reyna að fá knöttinn niðri við endalínu. Nóg er af skyttum báðum megin, ívið fleiri þó hjá Keflavík. Eins og oft hefur komið í ljós í vetur, þá gerist það ekki að allar skyttur Keflvíkinga séu í óstuði sama kvöldið, spurningin er einungis sú, hve langan tíma tekur að komast að því hver er heitur. Sóknarfráköst geta ráðið úrslitum í þessum leik. Njarðvíkingar eru sterkir undir körfunni í vörn og Keflvíkingar mega ekki leyfa Njarðvíkingum að fá tvö tækifæri í sókninni, því mæðir mikið á Birgi og Fannari, þeir verða að eiga teiginn, með hjálp frá Damon.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024