Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Skemmtilegast í heimi - segir Friðrik sem hætti sem þjálfari UMFG
Laugardagur 10. apríl 2010 kl. 12:34

Skemmtilegast í heimi - segir Friðrik sem hætti sem þjálfari UMFG



,,Ég tók ákvörðun um að segja þetta gott í bili, þetta voru fjögur fín ár og allt í mesta bróðerni enda mjög gott að vinna í Grindavík,“ sagði Friðrik Ragnarsson í samtali við Karfan.is en hann er hættur þjálfun Grindavíkur í Iceland Express deild karla en segist þó ekki vera að slíta sig frá körfuboltanum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


,,Ég er alveg sallarólegur, ef eitthvað spennandi kemur á borðið þá skoða ég það, ef ekki þá slaka ég bara á og hleð rafhlöðurnar,“ sagði Friðrik spurður hvort tilboðin um þjálfun hjá öðrum félögum væru byrjuð að rigna inn. ,,Að sjálfsögðu mun ég skoða spennandi verkefni því þetta er skemmtilegast í heimi, það er erfitt að slíta sig frá körfuboltanum og ég er ekkert að fara að gera það, ég mun þjálfa meir hvort sem það verður núna strax eða síðar.“

Tími Friðriks í Grindavík var titlalaus og einkenndist af ,,næstum því“ árangri. Þjálfarinn góðkunni sagði herslumuninn ávallt hafa vantað.

,,Sérstaklega í fyrra gegn KR og núna í bikarnum. Það var ágætis stígandi í liðinu þann tíma sem ég þjálfaði það og við vorum bara ansi góðir í úrlsitakeppninni í fyrra. Við mættum þá gríðarlega góðu liði KR og sennilega hefðum við klárað dæmið ef KR hefðu bara ekki verið svona sterkir,“ sagði Friðrik en sú úrslitarimma fór í oddaleik og þykir ein af þeim svaðalegri síðustu árin.

Hvað varðar framtíðarhorfur í Röstinni sagði Friðrik að Grindvíkingar þyrftu ekki að kvíða neinu þó vissulega þyrfti að stoppa í nokkur göt.

,,Kjarninn í Grindavík er ágætur til að byggja á, samt er svolítið bil í leikmenn úr næstu flokkum hjá þeim svo það er viðbúið að fylla þurfi upp í einhver göt. Grindvíkingar eru ekki í verri málum en margir aðrir en það verða klárlega breytingar á liðinu og ég óska þeim bara alls hins besta í framhaldinu,“ sagði Friðrik en eins og gefur að skilja mun koma nýr maður í brúnna og þá er samningur Brentons Birmingham útrunninn við félagið.