Skemmtileg áskorun
-segir körfuboltakonan Sandra Lind Þrastardóttir sem nú spilar í Danmörku
Sandra Lind Þrastardóttir, landsliðskona í körfubolta frá Keflavík, býr nú í Hørsholm í Danmörku og spilar með Hørsholm 79ers í dönsku úrvalsdeildinni. Sandra kann vel við sig í Hørsholm og segir liðsfélaga sína hafa tekið sér mjög vel. Liðið er mjög sterkt, hefur aðeins tapað einum leik á leiktíðinni og situr í öðru sæti deildarinnar.
„Þetta tímabil leggst mjög vel í mig. Skipulagið á deildinni er ekki ósvipað því sem er heima. Við eigum fullan möguleika á því að komast mjög langt og stefnum alla leið í úrslit. Við erum með blöndu af ungum og reyndum leikmönnum og stefnum alla leið,“ segir Sandra.
Aðspurð segir Sandra sig vera með nokkur markmið, sum töluleg og önnur ekki. Aðalmarkmið hennar sé að verða betri leikmaður en hún var áður en hún fór út. Hana langaði að prófa eitthvað nýtt og segir þetta skemmtilega áskorun að takast á við. „Ég kann rosalega vel við mig hérna. Er í góðum bæ þar sem allt er til alls en líka stutt til Kaupmannahafnar, sem er mikill plús. Klúbburinn tók svo ótrúlega vel á móti mér og stelpurnar í liðinu eru frábærar sem gerði það að verkum að breytingin var eins auðveld og hún verður. Þessar stelpur hafa spilað saman mjög lengi og hafa flestar alist upp í klúbbnum.“
Sandra kom heim til Íslands nýlega til að æfa og spila með landsliðinu í undankeppni EuroBasket. Hópurinn var mikið breyttur frá síðustu landsliðstörn, en þrír fyrrverandi liðsfélagar Söndru úr Keflavík bættust meðal annars í hópinn. „Þetta var stutt og erfið törn en ótrúlega skemmtileg. Við æfðum tvisvar á dag flesta daga og hópurinn náði að þétta sig vel saman á þessum stutta tíma. Mórallinn var mjög góður.“
Landsliðið endaði í 3. sæti síns riðils og komst ekki áfram en átti flottan sigur gegn Portúgal hér heima. „Auðvitað er alltaf hægt að gera betur og útileikurinn gegn Portúgal situr aðeins í mér því mér finnst við hefðum átt að taka þann leik en það þýðir ekkert að pæla í því. Annars er ég ótrúlega sátt með okkur. Sérstaklega núna í síðasta leik þar sem við spiluðum án nokkurra lykilleikmanna undanfarinna ára og sýndum hvað í okkur býr með því að ná í sigurinn. Þetta er reynsla sem við ætlum að byggja á og gera ennþá betur næst,“ segir Sandra.