Skellur í Keflavík eftir sterka endurkomu
Keflavík situr áfram á botni Bestu deildar karla í knattspyrnu eftir tap fyrir FH á heimavelli í kvöld. FH-ingar voru sterkari framan af og leiddu með tveimur mörkum í hálfleik en Keflvíkingar jöfnuðu í þeim seinni. Gestirnir náðu að knýja fram sigur í lokin og skildu heimamenn eftir með sárt ennið.
Það var ekki langt liðið á leikinn þegar gestirnir settu fyrsta markið (7'). FH sótti fram völlinn og sendu boltann fyrir án þess að vörn Keflavíkur næði að koma boltanum frá, boltinn barst fyrir fætur Björns Daníels Sverrissonar sem afgreiddi boltann snyrtilega í fyrstu snertingu framhjá Mathias Rosenord í marki Keflavíkur.
Keflavík náði lítið að skapa sér í fyrri hálfleik þótt þeir reyndu að ýta sér framar á völlinn. FH hafði undirtökin og hleyptu Keflvíkingum ekki nærri markinu.
Það var tekið að líða að lokum fyrri hálfleiks og leikurinn virtist vera að fjara út þegar FH-ingar sóttu upp vinstra megin, sendu boltann inn fyrir vörnina og upp að endamörkum. Þaðan var boltinn sendur inn í teiginn á Úlf Ágúst Björnsson sem skoraði af öryggi. Vörn Keflavíkur sofandi á verðinum.
Keflvíkingar mættu örlítið ákveðnari til seinni hálfleiks og á 61. mínútu uppskáru þeir mark þegar klaufaskapur átti sér stað í vörn FH. Frans Elvarsson komst þá inn í sendingu í öftustu línu gestanna og sendi á Stefan Ljubicic sem skoraði framhjá Sindra Kristni Ólafssyni í marki FH.
Með markinu hleyptu FH-ingar Keflavík inn í leikinn á nýjan leik og skömmu síðar var Sami Kamel nærri því að jafna en Sindri Kristinn lokaði vel á hann og varði.
Keflvíkingar jöfnuðu hins vegar á 84. mínútu eftir að hafa skipt nýjasta leikmanni sínum, Robert Hehedosh, inn á. Hann lét strax til sín taka þegar hann fékk boltann úti hægra megin og tók þrumuskot sem Sindri varði en hélt ekki boltanum, Sami Kamel fylgdi vel á eftir, náði frákastinu og skoraði. Allt jafnt og lítið eftir af leiknum.
Þá má segja að sagan hafi endurtekið sig frá síðasta leik þegar Keflavík jafnaði gegn KA. Eftir að hafa jafnað í kvöld liðu aðeins um þrjár mínútur þar til FH fékk hornspyrnu, upp úr henni náðu þeir skoti sem fór í varnarmann en boltinn féll fyrir fætur Björns Daníels sem skoraði sigurmarkið (87').
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók myndir á leiknum sem má sjá í myndasafni neðst á síðunni.