Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Skellur hjá Njarðvík
Miðvikudagur 4. júní 2008 kl. 17:23

Skellur hjá Njarðvík

Njarðvíkingar guldu afhroð í gærkvöld þegar þeir féllu úr VISA- bikarkeppni karla með tapi gegn 3. deildarliði KB, 2-0, á eigin heimavelli. Þeir munu þess vegna ekki fylgja öðrum Suðurnesjaliðum, Víði, Reyni, Þrótti Vogum og Keflavík inn í 32-liða úrslitin. Víðir vann einmitt stórsigur á Árborg á Garðsvelli, 6-0, í kvöld. Þeir gerðu þrjú mörk í hvorum hálfleik, en áður höfðu Reynir og Þróttur tryggt sig áfram.

Njarðvíkingar hafa alls ekki verið að finna sig í sumarbyrjun og var leikurinn í gær engin undantekning. Þrátt fyrir að hafa verið með boltann nær allan leikinn náði Njarðvík, sem er í 1. deild, ekki að skora og var lengst af lágt á þeim risið þó andstæðingurinn hafi ekki verið upp á marga fiska. KB-menn, sem eru úr Breiðholti, börðust grimmilega í vörninni og nýttu nær öll færi sem þeir fengu. Fyrst skoruðu þeir eftir skyndisókn á 34. mín og svo með langskoti úr aukaspyrnu þegar 90 mínútur voru liðnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Lítt örlaði á samstöðu eða sköpunargleði hjá Njarðvík í leiknum og þó vissulega megi segja að stundum hafi þeir verið óheppnir fyrir framan markið er einfaldlega ekki spurt að því. Þeir náðu ekki að skora, það gerðu gestirnir og fögnuðu innilega í leikslok.

VF-Myndir/Þorgils