Skák fremur en slagsmál
Margrét Guðrún er ein efnilegasta hnefaleikakona landsins
Margrét Guðrún Svavarsdóttir hóf að stunda hnefaleika rétt um fermingu. Áður hafði hún æft fimleika. Hún segist hafa fengið leið á fimleikunum og langaði hana að prófa eitthvað nýtt. Hún sló til og þótti íþróttin gríðarlega skemmtileg. Margrét er 17 ára í dag og að margra mati ein efnilegasta hnefaleikakona landsins. Hún er ein kvenna sem hefur hlotið svokallað silfurmerki í íþróttinni en stefnan er sett á gullið snemma á nýju ári.
Hvað var það sem heillaði Margréti við hnefaleika?
„Þetta er svo mikil útrás sem þú færð á æfingum,“ segir Margrét sem öðlast hefur aðra sýn á hnefaleika frá því að hún kynntist íþróttinni fyrst. „Maður leit á þetta sem einhver slagsmál og var smá hikandi við að byrja. Þetta er langt því frá að vera þannig. Þetta er eins og skák þar sem þú hugsar nokkra leiki fram í tímann.“ Hún segir fjölskylduna sína hafa verið hikandi í fyrstu en núna hafi þau mjög jákvætt viðhorf í garð íþróttarinnar.
Kom heim með gull frá Danmörku
Fyrsta ólympíska viðureign Margrétar fór fram árið 2014 á alþjóðlegu móti í Hvidovre, Danmörku. Á mótinu hlaut hún gullverðlaun fyrir að sigra sinn þyngdarflokk. Hún er í hópi þriggja fyrstu Íslendinga til þess að snúa heim með gullið af Hvidovre Box cup, og eina konan. Sama ár hlaut hún gull fyrir sigur sinn á móti Hnefaleikafélags Kópavogs. Þessi afrek leiddu til þess að hún var valin hnefaleikakona Reykjanesbæjar 2014. Til þess að standast það álag sem hnefaleikakappar verða fyrir í bardaga þarf mikla þjálfun og undirbúning. „Þú þarft að prófa að verða fyrir því álagi á æfingum með því að fara á móti mismunandi andstæðingum. Þannig finnur þú hvernig þú bregst við mismunandi aðstæðum,“ segir Margrét.
Stærsta mót hennar í ólympískri grein í ár var á Grænlandi, en þar mætti Margrét sínum harðasta andstæðingi til þessa. Margrét sýndi mikla yfirburði í fyrstu og annari lotu en var stöðvuð í þriðju lotu á skrokkhöggi. Var það þó mikil reynsla fyrir þessa ungu íþróttakonu. „Andlega geta hnefaleikar verið mjög erfiðir og það getur verið erfitt að koma sér í „mómentið“. Þetta er ótrúlega stór hluti af hnefaleikum og ef þú hefur ekki þennan andlega hluta þá eru minni líkur á því að ná langt. Ef þú nærð ekki að einbeita þér þá mun þér ekki ganga vel,“ segir Sandgerðingurinn Margrét.
Keppir reglulega við stákana
Það hefur alltaf reynst erfitt að finna andstæðinga fyrir Margréti, en stelpur á þessum aldri og þyngdarflokki (75kg) eru ekki á hverju strái. Það breyttist allt 2014 með tilkomu diploma hnefaleika. Slík umgjörð er gerð til að íþróttamenn geti sýnt fram á tæknikunnáttu gegn andstæðingi óháð þyngd og kyni. Hún hefur keppt flesta sína bardaga á móti strákum yfir hennar þyngdarflokki en aldrei átt í neinum erfiðleikum með það. Hún er vön því að fara gegn körlum á æfingu og fyrir marga hefur það verið auðmýkjandi reynsla að boxa við hana. Hún var í hópi þeirra fyrstu á landinu til að fá diploma í hnefaleikum hérlendis, en slíkar viðurkenningar hafa ekki verið gefnar út áður. Í febrúar síðastliðnum hlaut hún bronsmerki í diploma fyrir framúrskarandi einkunn í fimm bardögum. Næst hlaut hún silfur og var fyrst á landinu til þess, núna í september. Á næsta ári stendur til að taka þátt í Íslandsmóti ásamt því að vinna sér inn gullmerki í diploma, en eftir einn bardaga til viðbótar verður hún fyrsta stelpan til að ná þeim árangri. Sá eini sem hefur fengið gullmerki hingað til er æfingafélagi hennar, Arnar Smári Þorsteinsson.
Hafa miklar mætur á Margréti
Björn Snævar Björnsson yfirþjálfari Hnefaleikafélags Reykjaness rifjar upp þegar þessi 13 ára stelpa mætti fyrst á æfingar. „Hún hafði eiginleika til aðlögunar sem ekkert okkar hafði orðið vitni að áður. Það tekur örskamma stund fyrir hana að skilja aðstæður,“ segir Björn.
Margréti var snemma boðið að fara upp í keppnishóp til að sækja æfingar 6 daga vikunnar, með iðkendum sem eru lengra komnir. Mæting hennar hefur alltaf verið til fyrirmyndar að sögn þjálfarans. Margrét er í miklum metum hjá æfingafélögum sínum sem segja hana vera m.a.: Óútreiknanlega, skemmtilega, hreinskilna, óstöðvandi, ástríðufulla, metnaðarfulla og heiðarlega.
Stefnir út fyrir landssteinana
Í framtíðinni sér Margrét fyrir sér að fara erlendis að keppa í auknum mæli. Þannig öðlist hún víðtæka reynslu og kynnist mismunandi stílbrigðum. „Ég tel mig vera mjög höggþunga og það hefur reynst mér vel. Ég spila inn á það og því kannski lakari í vörninni. Ég er sífellt að reyna að bæta það sem ég er veikust í.“ Margrét er fremur hávaxin og hún segir það vera þægilegt að vera með lengri útlimi en andstæðingurinn. Áhugavert verður að fylgjast með Margréti á nýju ári þar sem hennar bíða spennandi verkefni.