Sjötti sigur Grindvíkinga
Grindvíkingar fara mikinn í Iceland Express-deild karla körfuknattleik og sitja á toppi deildarinnar ásamt Snæfelli en bæði liðin hafa unnið sex leiki í sjö umferðum. Grindavík tók í gær á móti Stjörnunni og hafði betur, 100-92 í hörkuleik.
Leikurinn var jafn í byrjun en Stjörnumenn höfðu tveggja stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann, 24-26. Um miðjan annan leikhluta var Stjarnan komin með 9 stiga forskot þegar kaflaskil urðu í leiknum. Guðlaugur Eyjólfsson setti niður þrjár þriggja stiga körfur og kveikti á Grindavíkurliðinu sem náði að 10 stiga forskoti áður en flautað var til hálfleiks.
Stjörnumenn eyddu miklu púðri í að komast aftur inn í leikinn en heimamönnun tókst að að halda þeim í skefjum. Liðsheild Grindavíkinga virkaði sterk sem sést m.a. á því að sex leikmenn þeirra skoruðu 12 stig eða meira í leiknum. Páll Axel var stigahæstur í liði Grindvíkinga með 20 stig. Ómar Örn Sævarsson með 17 stig og 9 fráköst.
Mynd - Guðlaugur Eyjólfsson skaut Grindvíkinga inn í leikinn með þremur þristum í öðrum leikhluta.