Sjöfn fór holu í höggi á 13. braut í Leiru
Þrettánda brautin á Hólmsvelli í Leirunni er ein erfiðasta holan á vellinum en Sjöfn Olgeirsdóttir, kylfingur í Golfklúbbi Suðurnesja er ekki sammála því eftir að hún fór holu í höggi á brautinni í þriðjudagsmóti GS í vikunni. Hún náði draumahögginu með 3-trénu á þessari 137 metra löngu braut en þennan dag var hún nokkuð lengri því pinninn var aftast á flötinni.
„Boltinn lenti rétt fyrir framan flötina og rúllaði alla leið ofan í holuna. Ég sá það ekki alveg fyrst en vinkonur mínar í hollinu voru nokkuð vissar og þegar við kíktum ofan í holuna urðu mikil fagnaðarlæti. Það er auðvitað frábært að ná draumahögginu,“ sagði Ósk í samtali við kylfing.is.
Það er ekki langt síðan Sjöfn byrjaði í golfi og því gaman að ná draumahögginu snemma á golfferlinum. „Það er alla vega góð hvatning. Nú verður maður bara að halda áfram að vinna í forgjöfinni,“ sagði Sjöfn sem er ein af mörgum konum sem á undanförnum árum hafa byrjað í golfi. Það er góður hópur kvenna sem stundar íþróttina í Leirunni. Þær eru duglegar að leika en eru einnig með sérstaka kvennadaga á miðvikudögum og fá leiðsögn frá Erlu Þorsteinsdóttur, golfkennara Golfklúbbs Suðurnesja.