Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sjóðheitir á toppnum!
Sunnudagur 25. maí 2008 kl. 22:41

Sjóðheitir á toppnum!

Keflvíkingar eru komnir einir á topp Landsbankadeildar karla í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á ÍA á Sparisjóðsvellinum í Keflavík í kvöld. Hallgrímur Jónasson, Guðmundur Steinarsson og Þórarinn Brynjar Kristjánsson skoruðu mörk Keflavíkur í leiknum. Keflvíkingar voru jafnan skeinuhættari í leiknum en féllu á köflum nokkuð aftarlega á völlinn og þá tókst gestunum að skapa fín færi og Vjekoslav Svadumovic gerði eina mark gestanna á 50. mínútu leiksins. Guðmundur Viðar Mete og Nicolai Jörgensen snéru aftur í byrjunarlið Keflavíkur í kvöld eftir eins leiks fjarveru sökum meiðsla.
 
Stefán Þór Þórðarson fékk gult spjald í liði ÍA á 6. mínútu leiksins og spjaldið átti eftir að bíta hann í rassinn síðar meir í leiknum. Á 13. mínútu fengu Keflvíkingar fínt færi þegar Hólmar Örn brunaði upp miðjuna, gaf út til hægri á Patrik Redo sem lét vaða á markið hægra megin úr teignum en skotið fór rétt yfir markið.
 
Aðeins þremur mínútum síðar brutu Keflvíkingar ísinn þegar Hallgrímur Jónasson kom heimamönnum í 1-0. Símun Samuelsen fékk fína sendingu inn í teiginn og skaut á markið en Esben Madsen varði skotið. Hallgrímur Jónasson kom þá aðvífandi og sendi knöttinn í netið við mikinn fögnuð heimamanna og áhorfenda en fjöldi var á vellinum í kvöld eða 2527 manns.
 
Keflvíkingar efldust við markið sitt og sóttu stíft. Símun Samuelsen átti fínt skot í hliðarnetið og á 25. mínútu var Símun aftur á ferðinni. Hann kom æðandi inn í markteig ÍA af vinstri kanti, renndi boltanum inn í miðjan teig á Hólmar Örn sem skaut rétt framhjá og fór illa með kjörið tækifæri.
 
Skagamenn fóru hægt og bítandi að láta meira að sér kveða en náðu ekki að skapa sér markverð færi. Á 41. mínútu urðu Keflvíkingar fyrir blóðtöku þegar Hallgrímur Jónasson varð að fara af velli en hann hafði fengið tvö þung höfuðhögg og inn á í hans stað kom Jón Gunnar Eysteinsson. Liðin héldu svo til hálfleiks í stöðunni 1-0 og Keflvíkingar í heildina sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.
 
Ekki leið á löngu í síðari hálfleik uns dró til tíðinda þegar Skagamenn náðu að jafna metin í 1-1 með marki frá Vjekoslav Svadumovic. Skot kom á mark Keflavíkur sem Ómar Jóhannsson varði en honum tókst ekki að halda boltanum og Svadumovic var réttur maður á réttum stað og sendi knöttinn í netið.
 
Næstu mínútur var nokkuð jafnræði með liðunum en rétt eins og í fyrri leikjum fóru Keflvíkingar að skipta inn ferskum fótum í sóknarlínuna. Hörður Sveinsson og Þórarinn Brynjar Kristjánsson komu inn í Keflavíkurliðið og hafði það góð áhrif.
 
Á 68. mínútu náðu Keflvíkingar svo aftur forystunni og komust í 2-1 með vítaspyrnu frá fyrirliða sínum Guðmundi Steinarssyni. Guðmundur var felldur í vítateignum og tók sjálfur spyrnuna og skoraði örugglega og setti því inn sitt fjórða mark í sumar en hann og Pálmi Rafn Pálmason leikmaður Vals eru markahæstu leikmenn deildarinnar í dag, báðir með fjögur mörk.
 
Svadumovic var aftur á ferðinni fyrir Skagamenn á 79. mínútu þegar hann náði til knattarins í teignum eftir hornspyrnu ÍA en Svadumovic skaut í slánna og yfir. Skömmu síðar dró til tíðinda þegar Stefán Þór Þórðarson fékk að líta sinn annað gula spjald í leiknum og fékk fyrir vikið rautt og varð frá að víkja en Stefán gerðist sekur um nokkuð kröftulega tæklingu og fékk réttilega að líta sitt annað gula spjald í leiknum.
 
Keflvíkingar kórónuðu sigur sinn á 91. mínútu þegar Þórarinn Brynjar Kristjánsson sýndi sannkallaða Ronaldo-takta við mark Skagamanna. Þórarinn fékk góða sendingu af miðjunni út á vinstri kantinn. Þórarinn brunaði inn í teig og tók þar nokkur glæsileg skæri og hristi af sér Árna Thor Guðmundsson varnarmann ÍA, mundaði byssuna og sendi knöttinn örugglega í netið framhjá Madsen í markinu. Lokatölur 3-1 og Keflvíkingar komnir einir á topp deildarinnar.
 
Sportmenn, stuðningsmannaklúbbur Keflavíkur, valdi Hólmar Örn Rúnarsson besta mann leiksins í kvöld en Hólmar var ógnandi allan leikinn og átti góðan dag í Keflavíkurliðinu sem og margir aðrir leikmenn liðsins. Skiptingarnar hjá Kristjáni þjálfara Guðmundssyni hafa verið að gefa vel í síðustu leikjum og ljóst að menn eru að koma klárir af bekknum.
 
Næsti leikur Keflavíkur í Landsbankadeildinni verður sunnudaginn 1. júní næstkomandi þegar þeir mæta nýliðum Þróttar á Valbjarnarvelli í Laugardal kl. 19:15.
 
 
Byrjunarlið Keflavíkur í kvöld:
Ómar Jóhannsson, markvörður, Guðmundur Viðar Mete, Guðjón Árni Antoníusson, Kenneth Gustafsson, Nicolai Jörgensen, Guðmundur Steinarsson, Símun Eiler Samuelsen, Patrik Ted Redo, Hallgrímur Jónasson, Hólmar Örn Rúnarsson og Hans Yoo Mathiesen.
 
Byrjunarlið ÍA í kvöld:
Esben Madsen, markvörður, Árni Thor Guðmundsson, Guðjón Heiðar Sveinsson, Bjarni Eggerts Guðjónsson, Heimir Einarsson, Helgi Pétur Magnússon, Vjekoslav Svadumovic, Igor Bilokapic, Stefán Þór Þórðarson, Dario Cingel og Atli Guðjónsson.
 
VF-Myndir/ [email protected]  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024