Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Sjóarajafntefli í Grindavík
Laugardagur 2. júní 2012 kl. 19:26

Sjóarajafntefli í Grindavík

Leikur Grindavíkur og ÍA í Pepsi-deild karla í knattspyrnu hófst með miklum látum og strax á 4. mínútu komust Skagamenn í ákjósanlegt færi en Páll Gísli Jónsson sá við Óla Baldri Bjarnasyni. Í næstu sókn á eftir fékk Garðar Bergmann Gunnlaugsson dauðafæri fyrir ÍA en Óskar Pétursson varði meistaralega. Grindvíkingar voru miklu grimmari á upphafsmínútunum og hefðu þeir hæglega getað verið búnir að skora tvö mörk eftir tuttugu mínútur en heilladísirnar voru ekki á þeirra bandi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Barátta og eljusemi Grindvíkinga bar ávöxt á 34. mínútu þegar Toni Ameobi skoraði laglegt mark. Heimamenn tóku langt innkast inná teig þar sem að Alex Freyr framlengdi boltann inná markteig. Þar tók Toni Ameobi, sem sneri baki í markið, boltann á lærið og lagði hann svo framhjá markverði ÍA. Staðan verðskulduð orðin 1-0. Gestirnir fóru aðeins að sækja í sig veðrið. Í uppbótartíma fengu Skagamenn aukaspyrnu út á miðjum velli og þeir hlóðu mönnum inn í teig. Það bar árangur því að aukaspyrna Jóhannesar Karls Guðjónssonar rataði beint á hausinn á Ármann Smára Björnssyni sem skallaði boltann fyrir markið og þar fleygði Jón Vilhelm Ákason sér á boltann og stangaði hann í markið. Þetta var það síðasta sem gerðist markvert í fyrri hálfleik og staðan var því 1-1 þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Guðjón Þórðarsson skipti Pape Mamadou Faye inná í hálfleik og hann kom með ferska strauma inn í Grindavíkurliðið. Grindavík hélt uppteknum hætti í síðari hálfleik og barðist fyrir hverjum einasta bolta. Þeir náðu forystunni á nýjan leik þegar að Pape Mamadou Faye setti mark sitt á leikinn með skalla eftir glæsilega fyrirgjöf Ray Anthony Jónssonar á 63. mínútu.

Eins og í fyrri hálfleik sóttu Skagamenn í sig veðrið þegar leið á hálfleikinn og á 72. mínútu fékk Gary Martin dauðafæri eftir sendingu nafna síns Dean en á einhvern óskiljanlegan hátt klúðraði hann fyrir opnu marki. Pressa þeirra skilaði þó marki þegar að fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Það var ekki ósvipað markinu í fyrri hálfleik. Jóhannes Karl tók aukaspyrnu langt útá velli sem hann gaf inní box. Eftir hamagang í teignum barst boltinn til Mark Doninger sem skoraði með hnitmiðuðu skoti í bláhornið. Kunnuleg staðan fyrir Grindvíkinga sem hafa tapað niður forystu áður í sumar. Þetta reyndist það síðasta markverða sem gerðist í leiknum og eru Skagamenn því enn taplausir á toppnum á meðan Grindvíkingar verma botnsætið.

Texti: www.sport.is

Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson