Sjö mörk hjá Keflavíkurkonum í fyrsta leik sumarsins
Óhætt er að segja að Keflavíkurkonur hafi fengið óskabyrjun á leiktíðinni í Landsbankadeildinni í knattspyrnu. Keflavík tók á móti Þór/KA á Keflavíkurvelli í kvöld og höfðu heimakonur 7-0 sigur á gestum sínum. Keflavík gerði fljótt út um leikinn en staðan eftir 11 mínútur var 3-0 Keflavík í vil. Eftir sigur kvöldsins eru Keflavíkurkonur í efsta sæti deildarinnar með Valskonum sem lögðu Stjörnuna 5-1 á Valbjarnarvelli. Þær Guðný Petrína Þórðardóttir og Danka Podovac gerðu tvö mörk fyrir Keflavík en þær Bryndís Bjarnadóttir, Björg Ólafsdóttir og Vesna Smiljokovic gerðu eitt mark hver.
Þegar aðeins þrjár mínútur voru liðnar af leiknum fékk Danka Podovac boltann fyrir utan vítateig gestanna og lét skotið vaða á markið. Boltinn fór í stöngina og þaðan í markvörð gestanna og inn og staðan 1-0 Keflavík í vil.
Sex mínútum síðar brunaði Vesna upp vinstri kantinn og sendi boltann fyrir markið og fann þar Bryndísi Bjarnadóttur sem skallaði knöttinn í netið og staðan orðin 2-0 Keflvíkingum í vil. Til þess að bæta gráu ofan á svart í hjá gestunum bættu Keflvíkingar við þriðja markinu á 11. mínútu þegar löng sending kom fram völlinn og var það Guðný Petrína Þórðardóttir sem tók við boltanum, lagði hann fyrir sig og sendi knöttinn í stöngina og inn. Staðan orðin 3-0 Keflvíkingum í vil og ljóst að stefnan hafði verið sett á stórsigur í Keflavíkurliðinu.
Eftir ótrúlega byrjun Keflavíkurkvenna skiptu þær niður í lægri gír og Þór/KA komust inn í leikinn og áttu nokkur ágætisfæri. Besta færi gestanna í fyrri hálfleik kom á 45. mínútu þegar þrumufleygur kom í átt að Keflavíkurmarkinu en Jelena Petrovic varði með glæsibrag og því gengu liðin til hálfleiks í stöðunni 3-0 Keflavík í vil.
Þrátt fyrir að vera þremur mörkum undir voru gestirnir baráttuglaðir í upphafi síðari hálfleiks og áttu nokkur færi en þegar Þór/KA komst í þessi örfáu skipti fram hjá Lilju Írisi og Björg Ástu þá var Jelena réttur maður á réttum stað og varði á köflum glæsilega.
Á 64. mínútu sendi Bryndís Bjarnadóttir boltann fyrir mark gestanna frá hægri kanti og fann þar í teignum Björgu Ólafsdóttur sem afgreiddi boltann í netið og staðan orðin 4-0 fyrir Keflavík. Fjórum mínútum síðar eða á 68. mínútu kom Vesna með boltann af vinstri kanti og inn á miðju og skaut regnbogakenndu langskoti yfir markvörð Þórs/KA og beint í netið, skemmtilegt mark og staðan orðin 5-0 Keflavík í vil og sigurinn í höfn.
Keflavíkurkonur hvoru hvergi nærri hættar og á 77. mínútu fékk Danka Podovag boltann fyrir utan teig og lét vaða á markið. Boltinn barst með jörðinni í gegnum nokkra leikmannaþvögu, undir Höllu í Þórs/KA markinu og í netið og staðan orðin 6-0 fyrir Keflavík og Danka með sitt annað mark.
Guðný Petrína Þórðardóttir bætti síðan við sínu öðru marki í leiknum úr vítaspyrnu á 83. mínútu. Guðný fékk stungu sendingu inn fyrir vörn gestanna, hristi af sér varnarmennina og var komin ein á móti markverði sem renndi sér of seint í tæklingu gegn Guðnýju og Keflavík fékk víti fyrir vikið. Guðný var öryggið uppmálað á punktinum og setti boltann í mitt hægra hornið. Lokatölur leiksins 7-0 Keflavík í vil og sterkur heimasigur í fyrsta leik í höfn sem og stigin þrjú.
Næsti leikur Keflavíkurkvenna fer fram á föstudag þegar þær mæta Stjörnunni í Garðabæ og hefst leikurinn kl. 19:15. Keflavík og Stjarnan háðu skemmtilegar rimmur á síðustu leiktíð þar sem Stjarnan hrifsaði fjórða sætið af Keflavík á lokasprettinum í deildinni.
Byrjunarliðin á Keflavíkurvelli í kvöld:
Keflavík:
Jelena Petrovic, markvörður, Anna Rún Jóhannsdóttir, Björg Ásta Þórðardóttir, Björg Magnea Ólafsdóttir, Donna Cheyne, Guðný Petrína Þórðardóttir, Lilja Íris Gunnarsdóttir, Bryndís Bjarnadóttir, Danka Padovag, Eva Kristinsdóttir og Vesna Smiljokovic.
Þór/KA:
Halla Völundardóttir, markvörður, Karen Nóadóttir, Inga Dís Júlíusdóttir, Rakel Hinriksdóttir, Dragana, Elva Mary Baldursdóttir, Hulda Frímannsdóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Rakel Hönnudóttir, Ivana Ivanovic og Rakel Óla Sigmundsdóttir.