Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Símun farinn til Noregs
Föstudagur 31. ágúst 2007 kl. 17:09

Símun farinn til Noregs

Valgeir J. Guðmundsson, framkvæmdastjóri KSD Keflavíkur, var rétt í þessu að staðfesta við Víkurfréttir að knattspyrnumaðurinn Símun Samuelsen væri farinn til Noregs þar sem hann hyggðist skrifa undir lánssamning við Sogndal sem leikur í 1. deild þar í landi.

 

Þá er Baldur Sigurðsson einnig farinn út til Noregs og mun hann ekki leika meira með Keflavík á þessari leiktíð þar sem hann er kominn á mála hjá Bryne. Ef af samningum verður hjá Símun og Sogndal þá mun Símun ekki heldur leika meira með Keflvíkingum þetta árið.

 

Símun þarf að skrifa undir lánssamninginn við Sogndal fyrir miðnætti í kvöld en leikmaðurinn þarf að vera í landinu er hann skrifar undir samninginn samkvæmt norskum reglum.

 

Valgeir sagði Keflvíkinga vera ánægða með kaupverðið á Baldri en að það yrði ekki gefið upp. Hvað lánssamning Símuns varðar þá mun hann standa til 15. nóvember næstkomandi og snúa aftur til Keflavíkur nema ef ske kynni að Sogndal vildi festa kaup á honum að loknum lánstímanum.

 

Ef Símun semur við Sogndal er ljóst að Keflvíkingar hafa misst tvo feikilega sterka leikmenn úr sínum röðum og verður það ekki heiglum hent að klára leiktíðina undir fánum Keflavíkur í stöðum þessara sterku leikmanna.

 

[email protected]

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024