Símon Logi sá um Ægismenn
Símon Logi Thasapong skoraði þrennu í gær þegar Grindavík bar sigurorð af Ægi Þorlákshöfn í áttundu umferð Lengjudeildar karla í knattspyrnu. Grindavík er nú komið í þriðja sæti deildarinnar en Þórsarar frá Akureyri geta komist upp fyrir Grindvíkinga ef þeir bera sigurorð af Njarðvík á laugardag.
Eftir frekar tilþrifalítinn hálftíma fór skyndilega allt í gang á Þorlákshafnarvelli. Símon Logi Thasapong kom með boltann í átt að teigi og lét skotið vaða af löngu færi. Símon var vel fyrir utan teig en skotið hnitmiðað og skrúfað í fjærhornið. Markvörður Ægis stóð frosinn á línunni og horfði bara á eftir boltanum í netið (30').
Tveimur mínútum eftir að hafa komið Grindavík í forystu var Símon Logi mættur aftur. Í þetta skipti fékk hann góða sendingu frá Tómasi Orra Róbertssyni inn fyrir vörn Ægis, Símon fór framhjá markverðinum og sendi boltann í autt markið (32'), staðan 0:2 fyrir Grindavík.
Heimamenn voru ekki tilbúnir til að gefast svo auðveldlega upp og á 35. mínútu sóttu Ægismenn að marki Grindavíkur. Þeir náðu góðri stungusendingu inn í teiginn beint í fæturna á sóknarmanni sem vippaði boltanum laglega yfir Aron Dag Birnuson í marki Grindavíkur. Staðan 1:2 í hálfleik, Grindavík í vil.
Ægir komst í álitlega sókn eftir um tíu mínútna leik en hún rann út í sandinn. Grindvíkingar fengu útspark og léku úr því upp hægra megin, upp í hornið þar sem góð fyrirgjöf kom fyrir markið, beint á kollinn á Símoni Loga sem var aleinn og óvaldaður á markteig Ægismanna og Símon fullkomnaði þrennuna með góðum skalla (55'). 1:3 fyrir Grindavík og útlitið gott.
Grindvíkingar fengu svo vítaspyrnu rúmum fimm mínútum síðar þegar enn ein góð sending inn fyrir vörn Ægismanna rataði á Marko Vardic sem lék að marki Ægis en markvörður þeirra felldi Vardic og vítaspyrna réttilega dæmd. Guðjón Pétur Lýðsson fór á punktinn en Guðjóni brást bogalistinn og setti boltann vel yfir markið.
Misnotuð vítaspyrna kom ekki að sök því fleiri urðu mörkin ekki og Grindavík landaði góðum sigri.
Leikinn má sjá í spilaranum hér að neðan.