Silfur hjá Jóa í Liverpool
Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson landaði silfurverðlaunum á opna breska borðtennismótinu sem fram fór í Liverpool um síðastliðna helgi. Jóhann mætti dönskum keppanda í úrslitum sem er ríkjandi heimsmeistari í þeirra flokki og mátti Jóhann sætta sig við 3-0 ósigur í úrslitarimmunni. Þann 21. mars næstkomandi kemur í ljós hvort ,,wild card” umsókn Jóhanns inn á Ólympíuleikana verði samþykkt en hann þurfti að sækja sérstaklega um þar sem aðrir keppendur neðar á heimslistanum en hann áttu rétt inn á leikana í gegnum sínar heimsálfur.
,,Ég á fullt erindi inn á leikana og við erum að sýna það t.d. með þessum árangri í Liverpool,” sagði Jóhann í samtali við Víkurfréttir. ,,Ég vann keppanda um helgina sem er í 4. sæti heimslistans í okkar flokki og mætti svo ríkjandi heimsmeistara í úrslitarimmunni en átti lítið í hann. Ég samt unnið þann spilara áður,” sagði Jóhann sem var í 14. sæti heimslistans um áramótin og sagði það súrt í broti að sjá keppendur í 17. og 24. sæti komast á undan honum til Peking. ,,Við krossum bara puttana, það er ekkert annað hægt að gera núna en bíða,” sagði Jóhann sem vann alla leiki sína í riðlakeppninni um helgina, lagði írskan keppanda í fyrstu umferð úrslita, lagði austurríkismann í undanúrslitum og lá svo gegn heimsmeistaranum í slagnum um gullið.