Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sigurjón Gunnarsson nýr formaður GSG
Fimmtudagur 20. janúar 2011 kl. 16:23

Sigurjón Gunnarsson nýr formaður GSG

Aðalfundur Golfklúbbs Sandgerðis var haldinn á þriðjudaginn í golfskálnum á Kirkjubólsvelli. Smávægilegar breytingar urðu á stjórn klúbbsins en Sigurjón Gunnarsson var kjörinn formaður. Þá gekk Páll Marcher Egonsson úr stjórn og í hans stað kom Skafti Þórisson en Sturla Þórðarson, Benedikt Gunnarsson og Hafþór Barði Birgisson sitja áfram í stjórn.

„Reksturinn gekk skínandi vel á síðasta ári en við skiluðum tæplega 4 milljónum í hagnað og er klúbburinn nánast skuldlaus þó hann skuldi eitthvað smávegis í laun milli áramóta,“ sagði Guðmundur Einarsson, framkvæmdastjóri klúbbsins aðspurður um rekstur síðasta árs. Hann bætti við að eignir klúbbsins samkvæmt ársreikningi væru metnar á 54 milljónir.

„Félagar í klúbbnum eru 214 minnir mig en þetta rokkar alltaf um 20 til 30 manns,“ sagði Guðmundur en hann á ekki von á mikilli breytingu á næsta ári en vonar að talan haldist yfir 200 og þá sé hann sáttur.

Golfklúbbur Sandgerðis verður 25 ára á árinu og fyrsta tilefnið verðu afmælismót með vorinu og verður 18 holu völlurinn tekinn formlega í notkun í því móti. „Það er búið að taka völlinn út og meta hann svo við spilum hann strax í vor,“ sagði Guðmundur.

Örlítil breyting var á gjaldskrá klúbbsins og þá á félagsgjöldum en einstaklingsgjaldið hækkaði úr 41.000 kr. upp í 45.000 kr. og er það tæp 10% hækkun frá síðasta ári. Einnig hækkaði hjónagjaldið upp í 62.000 kr. „Nýkjörin stjórn hefur verið að tala um að lækka vallargjöldin en það var á síðasta ári 3.000 kr. virka daga,“ sagði Guðmundur að lokum.

[email protected]

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024