Sigurgangan heldur áfram: Tæpt á Króknum
Keflvíkingar gerðu góða ferð Norður á Sauðárkrók í gærkvöldi er þeir lögðu heimamenn í Tindastól 87-89. Tommy Johnson var stigahæstur í liði Keflavíkur með 21 stig en þeir Gunnar Einarsson og Tommy Walker bættu báðir við 17 stigum. Magnús Þór Gunnarsson lék ekki með Keflavík í gær þar sem hann er í fríi erlendis.
Stólarnir gerðu vel að halda í Keflavík sem jafnan var með frumkvæðið í leiknum og á endasprettinum gerðu þeir Gunnar Einarsson og Arnar Freyr Jónsson mikilvægar körfur og börðust vel í Keflavíkurliðinu sem fór með tvö stig af Króknum.
Þetta var níundi sigurleikur Keflavíkur í röð og situr liðið nú á toppi Iceland Express deildar karla með 18 stig. Liðin mætast svo að nýju í Lýsingarbikarnum og þá verður aftur leikið á Króknum.
VF-Mynd: Tommy Johnson í leik gegn KR á dögunum en hann setti niður 21 stig gegn Tindastól í gær.