Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sigurganga KR á enda – magnaður slagur í Grindavík
Mánudagur 9. febrúar 2009 kl. 23:02

Sigurganga KR á enda – magnaður slagur í Grindavík

 
Glæstri sigurgöngu KR í Iceland Express deild karla er lokið! Grindavík varð í kvöld fyrst liða til að stöðva topplið KR með 91-80 sigri í magnaðri viðureign liðanna í Röstinni. Páll Axel Vilbergsson fékk uppreisn æru og leiddi Grindvíkinga til sigurs á lokasprettinum. Leikurinn var hnífjafn frá upphafi til enda en Grindvíkingar létu ekki hrinda sér frá fyrsta sigrinum á KR í vetur og léku af krafti frá upphafi til enda. Meðfylgjandi er umfjöllun sem karfan.is tók saman um leikinn og er birt með góðfúslegu leyfi.
 
Nick Bradford gerði fyrstu stig leiksins fyrir Grindvíkinga sem voru sprækari aðilinn og komust snöggtum í 11-6 með þriggja stiga körfu frá Helga Jónasi Guðfinnssyni. Páll Axel Vilbergsson var mættur til leiks frá fyrstu mínútu og ljóst að hann hafði helling að sanna eftir miður góða frammistöðu gegn KR í síðustu tveimur viðureignum liðanna. Páll Axel kom Grindavík í 19-11 með þriggja stiga körfu og þá tóku Vesturbæingar leikhlé og það hafði góð áhrif. Gestirnir náðu síðan að minnka muninn í 23-21 með þriggja stiga körfu frá Jóni Arnóri og hitastigið í Röstinni fór stigmagnandi. Benedikt Guðmundsson var afar ósáttur við vörn KR í fyrsta leikhluta sem lauk í stöðunni 25-23 Grindavík í vil. Páll Kristinsson var ekki í byrjunarliði Grindavíkur í kvöld en um miðbik fyrsta leikhluta kom hann inn á og skoraði m.a. fjögur stig í röð og hleypti miklu lífi í Grindvíkinga.

Pálmi Freyr Sigurgeirsson kom KR yfir í öðrum leikhluta 29-30 með þriggja stiga körfu en heimamenn tóku forystuna fljótt aftur. Þorleifur Ólafsson sem var í byrjunarliði Grindavíkur í kvöld hafði sig lítið í frammi í fyrsta leikhluta en undir honum tók að hitna í öðrum leikhluta og setti hann niður stóran þrist þegar hann kom Grindavík í 37-34 en það voru jafnframt hans fyrstu stig í leiknum.

Heimamenn í Grindavík voru sterkari á endaspretti fyrri hálfleiks og áttu hvað bestu sprettina þegar Brenton Birmingham og Nick Bradford voru utan vallar en gulir leiddu 50-44 í hálfleik. Félagarnir Páll Axel Vilbergsson og Helgi Jónas Guðfinnsson voru með 12 stig hjá gulum í hálfleik en Jason Dourisseau var með 11 stig hjá KR og Jakob Örn Sigurðarson 10.
 
Benedikt Guðmundsson hefur eflaust sagt sínum mönnum í KR að herða róðurinn í vörninni í síðari hálfleik en Grindvíkingar voru ekkert á því að gefa eftir í sóknarleiknum. Jón Arnór Stefánsson minnkaði muninn í 50-47 með þriggja stiga körfu en heimamenn voru staðráðnir í því að láta KR ekki hafa stjórnartaumana svo strax í næstu sókn svaraði Helgi Jónas Guðfinnsson í sömu mynt. Gríðarleg barátta einkenndi síðari hálfleikinn og menn í báðum liðum voru komnir í bullandi villuvandræði.



Jón Arnór Stefánsson leiddi sóknir KR á meðan Fannar Ólafsson kvartaði undan illri meðferð dómara þegar hann fékk sína fjórðu villu hjá Vesturbæingum. Þorleifur Ólafsson setti niður rosalega þriggja stiga körfu fyrir Grindavík sem breytti stöðunni í 67-59 en kappinn átti magnaðan dag með 19 stig og 5 fráköst.

Ekkert gekk í varnarleik KR í þriðja leikhluta og undirstrikaði það lekann í KR-vörninni þegar Grindavík lék vörn gestanna grátt og Páll Kristinsson fékk boltann galopinn undir körfunni og kom Grindavík í 69-59. Leikhlutanum lauk svo í stöðunni 75-62 þar sem Brenton Birmingham var kominn með fjórar villur í liði Grindavíkur og ekki enn búinn að skora í leiknum!

Óhætt er að segja að staða KR hafi verið mjög óvenjuleg að loknum þriðja leikhluta enda hafa þeir gert út um flesta leiki sína á þessum tímapunkti í vetur. Þeir voru þó ekki af baki dottnir og gerðu heiðarlega tilraun til þess að ógna forystu Grindavíkur.

Snemma í fjórða leikhluta skiptu KR-ingar í svæðisvörn sem virkaði vel og voru heimamenn oft ráðlausir gegn henni. Jakob Örn Sigurðarson minnkaði muninn í 77-71 með sterkum þrist og hleypti það miklu lífi í leik KR svo Grindavík tók umsvifalaust leikhlé. Jason Dourisseau náði svo að jafna metin í 75-75 þegar 4 mínútur voru til leiksloka.
 
Þegar rétt rúmar tvær mínútur voru til leiksloka fékk Fannar Ólafsson sína fimmtu villu og liðsmenn KR á tréverkinu, leikmenn sem þjálfarar, voru æfir út af dómgæslunni og þá sér í lagi hvað Fannar snerti.

Brotthvarf Fannars virtist hleypa nýjum krafti í Grindvíkinga sem komust í 83-78 með teigskoti frá Páli Axeli Vilbergssyni. Grindavík kórónaði svo glæstan sigur sinn á KR þegar þeir stálu boltanum og sendu hann á Þorleif Ólafsson sem brunaði upp völlinn og tróð með tilþrifum þegar 41 sekúnda var til leiksloka. Allt varð vitlaust í Röstinni og 16 leikja sigurganga KR í Iceland Express deildinni á enda. Reyndar var þetta fyrsti tapleikur KR á leiktíðinni og fjórða viðureign liðanna. Með sigrinum í kvöld hefur Grindavík betur í innbyrðisviðureigninni þar sem KR vann fyrri leikinn aðeins með 2 stigum en Grindavík vann leikinn í kvöld með 11 stiga mun, 91-80.

Leikir KR og Grindavíkur í vetur hafa verið sannkallað augnakonfekt en þar hefur Páll Axel Vilbergsson mátt sín lítils gegn KR vörninni en hann fann taktinn í kvöld og var stigahæstur heimamanna með 20 stig og 9 fráköst. Páll Axel var sérlega sterkur á endasprettinum þegar hann setti niður nokkrar mikilvægar teigkörfur sem héldu Grindavík við efnið. Nafni hans Páll Kristinsson sem byrjaði á bekknum átti magnaðan leik í kvöld og gerði 12 stig og tók 6 fráköst. Félagarnir Helgi Jónas Guðfinnsson (16 stig) og Þorleifur Ólafsson (19 stig) áttu einnig flottan dag hjá Grindavík.

Hjá KR var Jón Arnór Stefánsson atkvæðamestur með 21 stig og 5 stoðsendingar. Þegar mest á reyndi hélt Jón KR-ingum við efnið og minnstu munaði á endapsrettinum að þeim tækist að snúa leiknum sér í vil. Jason Dourisseau átt fínan fyrri hálfleik en nokkuð dró af honum í þeim seinni en Jason lauk leik með 19 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar. Jakob Örn Sigurðarson gerði 15 stig, tók 7 fráköst og gaf 7 stoðsendingar.
 
Texti: Jón Björn Ólafsson // [email protected]
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024