Sigurganga Grindvíkinga heldur áfram
Sjötti sigurleikurinn í röð
Grindvíkingar unnu sterkan útisigur gegn Þórsurum 88-97 í gær í Domino's deild karla í körfubolta. Bikarmeistararnir héldu þar með uppteknum hætti en þeir hafa aðeins tapað einum leik frá því um áramótin. Sá ósigur kom gegn ÍR 30. janúar. Liðið hefur unnið sex leiki í röð í deildinni og bikartitilinn á dögunum.
Leikurinn var jafn og spennandi framan af en Grindvíkingar voru sterkari á lokasprettinum og lönduðu sigri. Eftir sigurinn er ljóst að Grindvíkingar hafna í þriðja sæti deildarinnar og mæta Þórsurum eða Haukum í fyrstu umferð úrslitakeppninnar sem hefst innan skamms.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson skoraði 25 stig og tók 13 fráköst fyrir Grindvíkinga í leiknum og Jóhann Árni var með 20 stig. Tölfræðina má sjá hér að neðan.
Grindavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 25/13 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 20/5 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 14/7 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 14/10 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 8, Daníel Guðni Guðmundsson 7, Earnest Lewis Clinch Jr. 7, Hilmir Kristjánsson 2, Nökkvi Harðarson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Kjartan Helgi Steinþórsson 0.