Sigurganga Grindavíkur heldur áfram
Grindavík tók á móti Þór Akureyri í 1. deild kvenna í dag, leikurinn endaði með naumum sigri Grindvíkinga 62-59. Leikurinn var hörkuspennandi og náði Þór að saxa á gott forskot Grindvíkinga í þriðja leikhluta og bauð fjórði leikhluti upp á fjörugan körfubolta þar sem að bæði lið gáfu ekkert eftir.
Grindavík er í efsta sæti 1. deildar kvenna og hafa þær unnið alla sína leiki í deildinni.
Liðin mætast aftur á morgun í Grindavík og hefst leikurinn kl. 14:30.
Stigahæstar í liði Grindavíkur voru Ólöf Rún Óladóttir 22 stig, 12 fráköst og 3 varin skot, Embla Kristínardóttir var með 20 stig og 13 fráköst og Natalía Jenný Lucic var með 5 stig og 5 fráköst.