Sigurganga FH heldur áfram
FH-ingar sigruðu Keflavík 2-0 í Landsbankadeild karla á Kaplakrikavelli í kvöld. Ólafur Páll Snorrason kom FH yfir á 1. mínútu leiksins eftir sendingu frá Allan Borgvardt en Tryggvi Guðmundsson skoraði annað mark FH á 1. mínútu seinni hálfleiks. FH-ingar eru því sem fyrr í efsta sæti Landsbankadeildarinnar með 30 stig eftir 10 leiki en Keflavík er í þriðja sæti með 15 stig.
Keflvíkingar hófu leikinn á því að pressa á heimamenn en þá sendi Allan Borgvardt knöttinn á Ólaf Pál Snorrason sem afgreiddi hann snyrtilega í netið. Keflvíkingar létu markið ekki á sig fá og spiluðu stíft á FH-inga.
Á áttundu mínútu átti Tryggvi Guðmundsson skot að marki Keflavíkur en Ómar Jóhannsson, markvörður, náði ekki að halda boltanum, Michael Johansson kom honum til bjargar og hreinsaði boltann frá á marklínu. Vallaraðstæður voru mjög erfiðar enda fremur hvasst og hellidemba.
Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn og skiptust liðin á að eiga einstaka marktækifæri. Auðun Helgason, einn varnarmanna FH, varð á 35. mínútu leiksins að yfirgefa völlinn vegna meiðsla sem hann hlaut en Baldur Bett kom í hans stað.
Staðan því 1-0 í hálfleik heimamönnum í vil og nokkuð jafnt á með liðunum.
Í seinni hálfleik var Ólafur Páll Snorrason enn á ferðinni og það á upphafsmínútu hálfleiksins er hann gaf boltann fyrir markið, beint á Tryggva Guðmundsson, sem afgreiddi hann í netið. Falleg sókn og FH-ingar komnir í 2-0. Eftir markið virtist sem allur vindur væri úr Keflvíkingum og réðu heimamenn lögum og lofum á vellinum eftir það.
Á 50. mínútu leiksins fékk Guðmundur Sævarsson, í liði FH, að líta gula spjaldið fyrir brot á Guðmundi Steinarssyni. Nokkrum mínútum síðar átti Allan Borgvardt skalla eftir góða fyrirgjöf sem Ómar Jóhannsson varði vel. Aðeins tveimur mínútum síðar sendi Jónas Sævarsson boltann fyrir markið á Hörð Sveinsson sem skallaði rétt yfir.
Daði Lárusson, markvörður FH, spyrnti boltanum langt fram völlinn á 70. mínútu leiksins og fór hann beint á Tryggva Guðmundsson. Tryggvi tók þá fast skot að marki Keflavíkur sem Issa Abdulkadir, varnarmaður Keflavíkur, komst í veg fyrir. Þrátt fyrir góð varnartilþrif varð Issa að yfirgefa leikvöllinn þar sem hann meiddist við varnartilburðina.
FH-ingar héldu fengnum hlut og eru sem fyrr segir í efsta sæti deildarinnar og virðist ekkert lát ætla að vera á sigurgöngu þeirra.
„Við fórum í leikinn með því hugarfari að ná í öll stigin sem voru í boði,“ sagði Kristinn Guðbrandsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur, í samtali við Víkurfréttir í kvöld. „Mörkin virkuðu náttúrulega sem rothögg í upphafi hálfleikjanna en í heildina séð getum við ekki verið ósáttir við spilamennskuna. Við vorum að skapa okkur ágætis færi en nýttum þau ekki. Það var sérlega slæmt að fá á sig seinna markið því í hálfleik voru menn að peppa sig upp og staðráðnir í því að jafna metin en svo kemur markið. Það var sálfræðilega niðurdrepandi,“ sagði Kristinn. „Leikmenn okkar voru að leggja sig fram en uppskáru ekki sem erfiði, FH-ingar kunna þetta og þegar upp er staðið þá eru þeir klárlega með langbesta liðið í dag,“ sagði Kristinn að lokum.
Staðan í deildinni
VF-myndir/ Jón Björn, [email protected]