Sigurður stýrir bæði kvenna- og karlaliði Keflvíkinga
Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur samið við Sigurð Ingimundarson um að hann taki við stjórnartaumunum hjá kvennaliði félagsins. Hann mun einnig halda áfram að þjálfa karlalið félagsins eins og undanfarin ár. Falur Harðarson stýrði kvennaliðinu á síðasta tímabili en hann ákvað að halda ekki áfram vegna anna í starfi sínu.
Stjórn Keflvíkinga þakkar Fal fyrir samstarfið en Víkurfréttir náðu tali af einum stjórnarmanna félagsins. Gengið verður formlega frá samningum við Sigurð Ingimundarson innan skamms en Sigurður hefur áður þjálfað kvennalið Keflvíkinga með frábærum árangri.