Sigurður: Okkur vantar enn stöðugleika
Keflvíkingar eru komnir á topp
,,Við lékum mjög vel í þriðja leikhluta og þar kláraðist leikurinn. Það er lítið búið af mótinu en brátt kemur smá mynd á þetta og fljótlega upp úr þessum fyrstu umferðum fara menn að líta á stöðutöfluna,” sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir.
,,Okkar tímabil í fyrra var ekki gott þar sem við höfðum verið í fjögur ár í Evrópukeppnunum en nú er svona aukakeppni ekki að trufla okkur. Þrátt fyrir það höfum við ekki verið að spila þessa síðustu leiki frábærlega, það hafa komið frábærir kaflar í okkar leik og svo hræðilegir kaflar svo það vantar enn stöðugleika í liðið. Þegar stöðugleikinn verður kominn þá verður þetta þægilegra,” sagði Sigurður en hann kvaðst sáttur við framlag Gunnars Einarssonar í kvöld sem gerði 21 stig fyrir Keflavík, tók 3 fráköst og stal 3 boltum. Hjá Þór var Luka Marolt atkvæðamestur með 32 stig og 8 fráköst.
Keflvíkingar mæta svo grönnum sínum úr Njarðvík í hörkuslag á sunnudag í Ljónagryfjunni kl. 19:15. ,,Við bíðum bara spenntir eftir leiknum gegn Njarðvík og það verður bara flottur leikur,” sagði Sigurður en Njarðvíkingar mæta bikarmeisturum ÍR í Ljónagryfjunni annað kvöld kl. 19:15.
Tölfræðin úr leik Keflavíkur og Þórs í kvöld
VF-Mynd/ Úr safni - Sigurður Ingimundarson