Sigurður Ingimundarson tekur við Njarðvík
Það verður Sigurður Ingimundarson sem mun taka við liði Njarðvíkur af Val bróður hans. Frá þessu var gengið nú fyrir stundu. Gerður hefur verið tveggja ára samningur og verður hann formlega undirritaður í Sparisjóðnum í Njarðvík á morgun kl 16. Karfan.is greinir frá þessu.
Eins og greint var frá í gær gekk Valur Ingimundarson á fund stjórnar Njarðvíkur á föstudag og baðst lausnar og stýrði hann liðinu í síðasta skipti í gær. Í vikunni bárust líka þær fréttir að Sigurður hafi sagt upp í Solna og því var hann án þjálfarastóls þegar Njarðvíkurstóllinn losnaði.
Í stuttu spjalli við karfan.is sagði Sigurður að þetta væri spennandi áskorun, að taka við þeim grænu hinu megin við lækinn. Hann sagði jafnframt að hann væri bara glaður og spenntur að takast á við þetta verkefni. Aðspurður um hvort einhver breyting yrði á leikmannahóp sagði hann að svo yrði ekki.
Sigurður sem lék allan sinn feril með Keflavík og hefur svo þjálfað karla og kvennalið þeirra síðan hefur hann stýrt Keflavík 5 sinnum til Íslandsmeistaratitils, oftast allra þjálfara og þá er hann í þriðja sæti yfir þá þjálfara sem unnið hafa flesta leiki í efstu deild karla, 194 og má því reikna með að hann komist í 200 leikjaklúbbinn í vetur. Þar eru fyrir Valur bróðir hans og Friðrik Ingi Rúnarsson.
Þá hefur Sigurður þjálfað A landslið karla síðastliðin fimm ár.