Sigurður Ingimundarson: Stoltur af strákunum
Keflvíkingar urðu að sætta sig við 15 stiga ósigur gegn úkraínska liðinu Dnipro í Evrópukeppni karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Með ósigrinum kvað úkraínska liðið niður alla drauma Keflavíkur um að komast áfram í keppninni. Lokatölur leiksins í gær voru 93-78 Dnipro í vil en Sigurður Ingimundarson var engu að síður sáttur við leik sinna manna.
„Við vorum að spila flottan leik, síðustu tvær mínúturnar fóru þeir of langt fram úr okkur og við tókum sénsa sem gengu ekki upp og því fór sem fór,“ sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir. „Meiripartinn af leiknum lékum við vel en í þessum riðli voru sterk lið og ég er bara stoltur af mínum strákum þrátt fyrir ósigurinn.“
Arnar Freyr Jónsson, bakvörður, fór ekki með liðinu til Úkraínu og þar var skarð fyrir skildi í röðum Keflavíkur. Annað lið frá Keflavík, B-liðið, nagar nú á sér neglurnar þar sem Sigurður og partur af Keflvíkurhópnum er veðurtepptur í Dnipro en Sigurður á leik með Keflavík B í Lýsingarbikarnum á sunnudag þegar hann og gamlar stjörnur mæta Grindavík.
„Það er lykilatriði fyrir Keflavík B að ég spili á sunnudag, sóknin mun fara í gegnum mig því ég er besti sóknarmaður liðsins. Ég hef frjálsar hendur í þessu liði og er eiginlega bara sóknarmaður,“ sagði Sigurður hress í bragði og ljóst að hann er hvergi smeykur fyrir leikinn gegn fersku Iceland Express deildarliði Grindavíkur.
Með Sigurði í B-liði Keflavíkur eru m.a. Jón Kr. Gíslason, Guðjón Skúlason, Falur Harðarson og Albert Óskarsson. Hér á árum áður skipuðu þessir fræknu kappar eitt sigursælasta lið síns tíma.
Leikir í Lýsingarbikar karla á sunnudag:
Keflavík B – Grindavík 19:15
Tindastóll – KR 19:15
Hamar/Selfoss – Þór Þorlákshöfn 19:15
Valur – Skallagrímur 19:15