Sigurður Ingimundarson ráðinn Landsliðsþjálfari!
Sigurður Ingimundarson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari karla í körfuknattleik til næstu tveggja ára eða fram yfir riðlakeppni Evrópumóts landsliða sem lýkur í september 2005. Ráðning Sigurðar var tilkynnt á blaðamannafundi í Laugardal fyrir stundu.
Sigurður var leikmaður og þjálfari hjá Keflavík árum saman og á einnig að baki 27 landsleiki. Þá var hann um tíma landsliðsþjálfari kvenna. Undir stjórn Sigurðar hefur Keflavík unnið níu stóra titla í karlaflokki og átta í kvennaflokki. Síðast stýrði hann karlaliði Keflavíkur til sigurs bæði á Íslandsmótinu og í bikarkeppninni á síðustu leiktíð. Sigurður sagði þjálfarastarfi sínu hjá karlaliði Keflavíkur lausu á haustdögum og Falur Harðarson og Guðjón Skúlason tóku við starfi hans þar.
Sigurður tekur við starfinu af Friðriki Inga Rúnarssyni, en samningur hans við KKÍ rann út eftir Smáþjóðaleikana á Möltu í vor. Mál landsliðsins hafa verið í brennidepli að undanförnu vegna breytingar á leikjafyrirkomulagi FIBA sem urðu til þess að engir "alvöru" leikir eru að dagskrá hjá landsliðinu fyrr en í september á næsta ári.