Sigurður Ingimundarson: Menn tóku málin í sínar hendur
Síðustu tveir leikir deildarmeistara Keflavíkur í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar hafa verið magnaðir. Í gærkvöldi komust Keflvíkingar í metabækurnar þegar þeir urðu fyrsta liðið á landinu til þess að ná að jafna einvígi 2-2 eftir að hafa lent 2-0 undir. Keflavík burstaði ÍR í Hellinum í Breiðholti 79-97 og munu liðin mætast í oddaleik í Toyotahöllinni á miðvikudag. Nú strax er komin mikil spenna fyrir miðvikudeginum og hefur það komið fram á heimasíðu Keflavíkur að Rottweilerhundarnir Erpur og Stinni muni skemmta áhorfendum í leikhléi.
Víkurfréttir hittu á Sigurð Ingimundarson þjálfara Keflavíkur eftir leik í gærkvöldi og var hann virkilega sáttur við síðustu tvo leiki sinna manna.
,,Liðið hefur verið að leika virkilega vel núna síðustu tvo leiki og menn voru bara alls ekkert sáttir við eigin frammistöðu fyrstu tvo leikina, hvorki einstaklingar né liðið. Menn tóku bara málin í sínar hendur og snéru þessu við,” sagði Sigurður en Keflavík vann þriðja leik liðanna með 33 stiga mun og með 18 stiga mun í gærkvöldi.
Vörn Keflvíkinga hefur smollið saman í síðustu tveimur leikjum og hafa ÍR-ingar verði í mesta basli með sóknarleik sinn í kjölfarið. ,,Ég heyrði nú eitthvað af því væli að við værum að spila gróft. Ég held að við spilum fast og vel og það er engin dagskipun að spila gróft heldur spila vel og vera fastir fyrir,” sagði Sigurður. ,,Nú eigum við einn leik eftir í þessari seríu og förum að undirbúa okkur undir hann og ég lofa því að við verðum tilbúnir,” sagði Sigurður en við fengum hann til þess að segja nokkur orð um leikmennina þá Þröst Leó Jóhannsson og Sigurð Þorsteinsson sem hafa blómstra í síðustu tveimur leikjum.
,,Þröstur og Siggi eru alvöru leikmenn og eru að læra helling af því að spila með mjög góðum mönnum. Þetta eru strákar sem geta helling og það er þvílíkur lúxus að eiga svona kalla í bakhöndinni. Það er klárt að þessir strákar eiga einhvern tíman eftir að taka við keflinu í liðinu þó margir aðrir leikmenn liðsins eigi enn mörg ár eftir,” sagði Sigurður.
Þröstur hefur gert samtals 30 stig í síðustu tveimur leikjum og Sigurður samtals níu en Sigurður hefur tekið á sig stærra hlutverk í teignum eftir að Anthony Susnjara meiddist í fyrri hálfleik í þriðja leik liðanna.
Erfitt er að benda á einhverja fáa leikmenn í Keflavíkurliðinu sem skarað hafa fram úr í síðustu tveimur leikjum heldur er allt annað að sjá til liðsins. Hver einasti maður er að leggja sitt af mörkum og með þessu áframhaldi myndi undirritaður kvíða þeim degi að mæta í oddaleik til Keflavíkur.