Sigurður Ingimundarson: Eigum enga óskaandstæðinga
Það er gömul saga og ný að þegar Keflvíkingar halda út á land til þess að keppa í körfubolta eiga þeir það til að verða veðurtepptir. Minnstu mátti muna í gærkvöldi að deildarmeistararnir yrðu eftir á Akureyri í gærkvöldi eftir 83-86 sigur á Þór. Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflavíkur sagði að margir sinna leikmanna hefðu hreinlega þurft að hlaupa út í bíl í búningunum eftir leik og með naumindum komust Keflvíkingar í flug. Nú eru kapparnir komnir heim, sáttir með sigurinn og sæti í undanúrslitum.
,,Þetta var flottur leikur í gærkvöldi og það var ekkert nauðsynlegt að vinna 2-0 til þess að fá smá hlé, þetta lúkkar bara vel,” sagði Sigurður kíminn í samtali við Víkurfréttir.
,,Það er ekkert endilega betra að bíða of lengi eftir undanúrslitunum og þurfa að æfa mikið milli leikja,” sagði Sigurður en Keflavík vann einvígið gegn Þór 2-0. Hann sagði leikinn í gærkvöldi hafa verið hörkuleik og að Þórsarar væru erfiðir heim að sækja.
Sigurður Þorsteinsson, miðherjinn ungi í liði Keflavíkur, var stigahæstur Keflvíkinga í gær með 20 stig og kvaðst þjálfarinn ánægður með frammistöðu kappans. ,,Siggi var að spila mjög vel og það er skemmtilegt hvað það er mikil samkeppni í okkar liði. Siggi hélt okkur inni í leiknum ásamt Arnari Frey en þeir voru báðir að spila mjög vel í gær. Þetta sýnir að við erum ekkert endilega bundnir við að ákveðinir leikmenn hjá okkur séu að spila vel heldur liðið sem heild.”
Nú er þess bara að bíða og sjá hvaða lið mætir Keflavík í undanúrslitum og vildi Sigurður ekki skjóta á hvaða lið honum þótti líklegast. ,,Þetta eru allt góð lið og við eigum okkur enga óskaandstæðinga. Sem dæmi eru Njarðvíkingar ekkert endilega á leið í sumarfrí, ef þeir mæta í kvöld og spila vel eiga þeir alveg helmingslíkur. Þeir eru alveg nógu góðir til að vinna Snæfell. Lið sem kemur í Keflavík og flengir okkur getur unnið öll lið,” sagði Sigurður um granna sína í Njarðvík sem mæta Snæfell í Stykkishólmi í kvöld kl. 19:15.
Eftir magnað upphaf á tímabilinu tóku Keflvíkingar smávægilega dýfu eftir áramót en hefur Sigurður trú á því að sínir menn séu núna óðar að finna sitt fyrra form?
,,Eftir tapleikinn gegn Hamri höfum við spilað vel og leikurinn í Hveragerði var góð vakning fyrir okkur. Það getur verið erfitt að spila vel á löngum köflum eins og við gerðum framan af móti en þessi dýfa eftir áramót var aðeins of löng hjá okkur,” sagði Sigurður.