Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sigurður Ingimundar: Kæmi á óvart ef það er ekki fullt hús
Föstudagur 26. apríl 2013 kl. 14:13

Sigurður Ingimundar: Kæmi á óvart ef það er ekki fullt hús

Þriðji leikur Keflavíkur og KR í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik fer fram í kvöld í Toyotahöllinni. Staðan í einvíginu er 1-1 eftir að KR hafði betur í öðrum leik liðanna í Vesturbænum á miðvikudag, 75-65. Spennan fyrir þriðja leik liðana er talsverð og má búast við hörkuleik

„Þetta hefur verið flott hingað til – líf og fjör,“ segir Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur. „Úrslitin hafa ekki verið óvænt til þessa. Við vorum ekki nógu góðar sóknarlega í síðasta leik og vörnin hefði mátt vera betri. Við lögum það í kvöld.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflavík á möguleika á að vinna alla þrjá stóru titlana í deildinni í vetur með að verða Íslandsmeistari. Nú þegar er liðið búið að vinna bikar- og deildarmeistaratitilinn. Sigurður segir að allir séu heilir í sínu liði en Birna Valgarðsdóttir var ekki alveg heil heilsu í síðasta leik.

„Birna er svoddan nagli – það er ekkert væl í henni,“ segir Sigurður léttur. Hann vonast eftir góðum stuðningi áhorfenda í kvöld. „Það kæmi mér á óvart ef það væri ekki fullt hús í kvöld. Stuðningur áhorfenda skiptir gríðarlegu máli. Allir sem hafa spilað körfubolta vita að það er miklu betra og skemmtilegra að spila þegar það er fullt hús. Ég skora á alla Keflvíkinga að mæta og hvetja okkur áfram.“

Leikurinn hefst kl. 19:15 en stuðningsmenn ættu að mæta stundvíslega því kyndað verður upp í grillunum fyrir leik. Ólafur Ásmundarson mun standa vaktina á grillinu og matreiða borgara af sinni alkunnu snilld. Svo góðir eru hamborgararnir að önnur lið eru þegar farin að bera víurnar í Ólaf, sem neitað hefur öllum gylliboðum.