Sigurður Ingimundar dregur sig í hlé - Hjörtur þjálfari Keflvíkinga
Sigurður Ingimundarson sem verið hefur þjálfari karlaliðs Keflavíkur í körfubolta undanfarin ár hefur samkvæmt læknisráði dregið sig í hlé frá þjálfun. Frá þessu var greint á vefnum Karfan.is. Þar er haft eftir Sigurði að hann hafi ekki verið að mæta á æfingar með liðinu þar sem hann þurfi að huga að heilsu sinni. „Ekkert alvarlegt, samt. En samkvæmt læknisráði og mínu eigin þá þarf ég aðeins að taka því rólega og svo á þetta allt eftir að koma í ljós,“ sagði hann í viðtali við Körfuna.
Hjörtur Harðarson sem verið hefur aðstoðarþjálfari liðsins mun nú taka við þjálfuninni. Í viðtalinu við Körfuna kveðst Sigurður eiga von á því að koma til baka í þjálfun liðsins en hvenær það verði muni tíminn leiða í ljós.