Sigurður Gunnar: Betra en í fyrra
„Tilfinningin er betri en í fyrra. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að lýsa þessu – þetta er frábært. Það er svakalegt að vinna á heimavelli með þetta fólk á bakinu, það var ekki annað hægt en að vinna,“ sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson, leikmaður Grindavíkur eftir að liðið tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í körfuknattleik í gær.
Sigurður hefur leikið tvö tímabil með Grindavík og orðið Íslandsmeistari í bæði skiptin. Hann er með lausan samning eftir tímabilið og ætlar nú að hugsa málin um hvað hann mun gera. Sigurður sagði í samtali við Víkurfréttir að hann myndi ræða fyrst við Grindvíkinga um framhaldið.