Sigurður fær kaldar kveðjur úr Grindavík
Gunnlaugur Hreinsson, formaður aðalstjórnar UMFG, vandar Sigurði Jónssyni ekki kveðjurnar í pistli sínum á www.umfg.is en Sigurður sagði starfi sínu lausu sem þjálfari Grindavíkur í Landsbankadeildinni á lokaspretti deildarinnar. Gunnlaugur segir Sigurð hafa stungið af og kallar hann „lúser, eða á góðri íslensku, aumingja.“
Knattspyrnutímabilið hjá Grindvíkingum var rússíbanaferð út í gegn, liðið náði í fyrsta sinn að koma sér upp í 2. sæti deildarinnar en eftir það fór að halla undan fæti og kunnuleg botnbarátta gerði vart um sig. Þegar allt virtist vera að fara á versta veg sagði Sigurður starfi sínu lausu öllum til mikillar undrunar.
Gunnlaugur lýsir því í pistli sínum hvernig baráttuandinn hefði verið blásinn í brjóst Grindvíkinga með ráðningu Sigurðar og þeirra Magna Fannbergs og Milans Jankovic. „ Maður fylltist bjartsýni þar sem Sigurður var þekktur fyrir að gefa ungum mönnum tækifæri og sá fram á að efnilegir Grindvíkingar myndu spila í efstu deild sumarið 2006.“ Gunnlaugur bætir við: „Frábærir hlutir voru framundan í grindvískri knattspyrnusögu.“
Rétt eins og leiktíðin hjá Grindvíkingum gekk ekki allt eftir og Gunnlaugur segir að stór orð hafi verið höfð uppi sem engan veginn hefði verið staðið við. „ Ljóst er að enn einn þjálfarinn hefur komið til Grindavíkur og talað mikið en gert minna.“
Gunnlaugur ræðir einnig í pistli sínum að sárt hafi verið að sjá fram á glæsta framtíð Grindavíkurliðsins en að í raun hafi þarna orðið mestu vörusvik sem grindvísk knattspyrna hefur kynnst. Gunnlaugur segir að þegar alvaran hafi blasað við hafi þjálfarinn ákveðið að stökkva frá öllu saman og kallar hann þá lúser, eða aumingja.
Ljóst er að Grindvíkingar eru enn í sárum yfir brotthvarfi Sigurðar og telja hann hafa leikið félagið grátt og til að bæta gráu ofan á svart munu þeir leika í 1. deild að ári. Enn á eftir að koma í ljós hver viðbrögð Sigurðar verða í þessu máli ef einhver.
Hægt er að lesa pistil Gunnlaugs á vefsíðunni www.umfg.is