Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Sigur í spennuleik
Föstudagur 27. janúar 2006 kl. 15:54

Sigur í spennuleik

Keflavík lagði Snæfell í hörkuleik í Iceland Expressdeildinni í gær, 86-84.

Leikir liðanna undanfarin ár hafa einkennst af mikilli baráttu og spennu, enda hafa liðin ást við um Íslandsmeistaratitilinn síðustu tvö ár.

Fyrri hálfleikurinn í gær var hnífjafn þar sem liðin skiptut á að hafa forystu og var munurinn aldrei meiri en 6 stig, 42-36 fyrir Keflavík. Snæfellingar tóku þá á sig rögg fyrir hálfleikinn og jöfnuðu 44-44.

Í upphafi seinni hálfleiks pressuðu Keflvíkingar gestina langt frammi á velli en voru full ákafir og tóku og mikla sénsa þannig að Snæfellingar fengu mikið af auðveldum færum. Igor Beljanski var sérlega erfiður viðfangs í upphafi hálfleiksins og fór fyrir 0-13 kafla Snæfellinga sem breytti stöðunni í 50-59.

Þá var sem Keflvíkingar tækju sig saman í andlitinu og unnu sig aftur inn í leikinn og jöfnuðu 66-66 og höfðu 2ja stiga forskot fyrir síðasta leikhlutann, 69-67.

Leikurinn var í járnum á lokakaflanum og hefði sigurinn hæglega getað fallið hvorumegin sem var. Þegar 4 mín voru eftir af leiknum var staðan 80-80 og Snæfell tók frumkvæðið. Þeir leiddu með 1 stigi, 83-84, en AJ Moye kom heimamönnum yfir á ný með ótrúlegu skoti á hlaupum þegar um 20 sek voru eftir.

Snæfellingar höfðu tækifæri til að komast yfir á ný en skot þeirra Beljanski og Nate Brown misstu marks og Sverrir Þór Sverrisson náði varnarfrákasti og var umsvifalaust brotið á honum.

Sverrir skoraði úr öðru vítaskoti sínu og breytti stöðunni í 86-84 og Snæfellingar áttu 3 sek upp á að hlaupa. Moye varði hins vegar skot Beljanskis og sigurinn var í höfn. Keflvíkingar eru nú í 2-4. sæti ásamt KR og Grindavík.

Myndskeið úr leiknum

VF-Myndir/Þorgils

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024