Sigur í lokaleik Keflvíkinga í Pepsi-deildinni
- níu uppaldir leikmenn voru í leikmannahópnum. Tveir 16 ára komu inn á.
Keflvíkingar enduðu tímabilið í Pepsi-deildinni með sigri á Leikni á Nettó-vellinum í Keflavík. Leikurinn var sérstakur fyrir þær sakir að bæði liðin voru fallin. Lokatölur urðu 3-2 en staðan var 2-1 fyrir heimamenn í hálfleik.
Keflavík var miklu betra liðið í fyrri hálfleik og Hörður Sveinsson kom þeim á bragðið á fyrstu mínútunum með góðu marki. Leiknismenn jöfnuðu á 29. mínútu en Hörður svaraði nokkrum mínútum síðar með öðru marki 2-1 eftir að hafa fengið sendingu frá Jóhanni B. Guðmundssyni.
Í síðari hálfleik kom Sigurbergur heimamönnum í 3-1 á 83. mín. með fínu marki en hann fékk góða sendingu frá Frans Elvarssyni. Leiknismenn bættu við einu marki á 90. mín. og urðu lokatölur 3-2.
Annar sigur heimamanna í sumar sem hvíldu útlendingana í liðinu. Nokkrir bráðungir og efnilegir knattspyrnumenn voru í hópnum, þar af níu sem eru uppaldir hjá liðinu. Komu tveir þeirra inn á í fyrsta sinn hjá Keflavík, þeir Stefán Alexander Ljubicic og Sigurbergur Bjarnason, báðir 16 ára. Stefán er sonur Zorans Ljubicic fyrrverandi þjálfara Keflavíkur en eldri bróðir hans, Bojan, var einnig í leikmannahópnum. Sigurbergur er sonur Bjarna Jóhannssonar sem þjálfaði síðast KA á Akureyri. Ekki er ólíklegt að þessir peyjar taki við keflinu hjá bítlabæjarliðinu á næstu árum.
„Það er gaman að sjá að það er fullt af efnivið í Keflavík. Við endum leikinn með tvo þriðja flokks gutta inn á vellinum og við þurfum að byggja á þessari frammistöðu og ef það tekst þá er ég ekki í vafa um að Keflavík verði ekki lengi í fyrstu deild,“ sagði Haukur Ingi Guðnason í viðtali við visir.is eftir leikinn. Hann sagði að uppstokkun í félaginu væri nauðsynleg en ekkert væri búið að ákveða hvort hann og Jóhann B. yrðu áfram.
Hann var beðinn um að lokum að gera upp sumarið í örfáum orðum: „Mikil vonbrigði. Það er kannski það eina sem maður getur sagt. Við getum samt horft á það þannig að dagurinn í dag sé ákveðið upphaf fyrir framtíðina.“