Sigur í fyrsta leik Snorra
Keflavík vann góðan 4-2 sigur á Haukum í Faxaflóamóti kvenna en leikið var í Reykjaneshöllinni á laugardaginnvar.
Haukastelpur voru nokkuð sprækari í upphafi en leikurinn jafnaðist síðan og Keflavíkurstelpur komust betur inn í leikinn þegar á leið. Þær náðu forystu um miðjan hálfleikinn þegar Dagmar Þráinsdóttur skoraði baráttumark. Haukar náðu að jafna en Nína Ósk Kristinsdóttir kom Keflavík yfir með laglegu skoti utan teigs og staðan í hálfleik var 2-1.
Í síðari hálfleik voru Keflavíkurstelpur betri allan tímann þó Haukastelpur hafi fengið sín færi og skorað úr einu. Keflavík fékk mun fleiri færi og skoruðu úr tveimur þeirra en þar var á ferðinni Bryndís Þóra Ásgeirsdóttir sem kom inn á sem varamaður í síðari hálfleik og gerði bæði mörkin.
Þetta var fínn leikur hjá Keflavík sem lék þarna sinn fyrsta leik undir stjórn Snorra Más og virtust þær hafa gaman af þessu verkefni sínu. Þess má geta að einhverjar voru að snúa aftur eftir mislangt hlé frá fótboltanum og aðrar komnar í nýja stöður á vellinum.