Sigur í frumraun Ólafs
Golfkennarinn Ólafur Jóhannesson, GS, varð Norðurlandameistari í golfi um síðustu helgi í flokki 35 ára karla og eldri. Þetta er fyrsti NM titill Ólafs sem kom í fyrstu tilraun. Norðurlandamótið fer fram á Íslandi árið 2009 þar sem Ólafur fær möguleika á því að verja titilinn verði hann í sveitinni það árið. Íslenska sigursveitin var skipuð þeim Björgvini Sigurbergssyni GK, Ólafi Jóhannessyni GS, Sigurði Péturssyni GR og Sigurbirni Þorgeirssyni GÓ.
„Þetta var virkilega gaman og mikil stemmning í íslenska hópnum alla helgina,“ sagði Ólafur í samtali við Víkurfréttir. „Við fórum út til þess að sækja titilinn eins og Sigurður Pétursson hafði á orði en við vissum það fyrirfram að við ættum góða möguleika. Völlurinn úti var mjög erfiður og menn göntuðust með það að maður þyrfti að skáskjóta sér á vellinum með burðarpokana til þess að komast leiðar sinnar,“ sagði Ólafur kátur í bragði. Vellirnir úti voru mjög erfiðir og nokkuð hátt skor sást í mótinu en Ólafur sagði hópinn hafa verið einbeittan. „Við fórum í þetta mót til þess að gera eins vel og við gátum og höfðum forystu alla dagana og að lokum sigur. Fyrir síðasta hringinn höfðum við fjögurra högga forystu og svo unnum við mótið með sjö högga mun,“ sagði Ólafur sem nú er kominn til Vestmannaeyja með golfsveit GS sem tekur þátt í Sveitakeppninni um helgina. Ólafur fer sem spilandi liðsstjóri til Eyja og segir Suðurnesjamenn fara með sigur í huga.
Golfsettið hjá Ólafi er sjóðandi heitur gripur um þessar mundir en Ping settið hans fór rakleiðis heim af Norðurlandamótinu og beint út á Seljtarnarnes á mánudag. Sigurpáll Geir Sveinsson, GKj, spilaði á golfsettinu hans Ólafs og hafði sigur í Einvíginu á Nesinu. Sigurpáll varð að fá lánssett þar sem hans var enn úti í Danmörku og því tilvalið að fá lánað sett sem nokkrum klukkustundum áður varð Norðurlandameistari í golfi. Þá er bara að krossa fingur og vona að settið færi GS sveitinni jafn mikla gæfu og það hefur fært eiganda sínum og Sigurpáli.