Sigur hjá Keflavík og Njarðvík - Grindavík tapaði
Njarðvíkingar og Keflvíkingar fóru með sigur inn í jólafrí körfuboltamanna en Grindvíkingar töpuðu sínum leik í Domino’s deildinni.
Njarðvíkingar unnu öruggan sigur í Ljónagryfjunni á Þór Þorlákshöfn 101:77 en Þórsarar höfðu í síðustu umferð unnið Keflavík. Mario Matasovic skoraði 23 stig fyrir Njarðvík sem vann sinn sjötta leik í röð í deildinni.
Keflvíkingar unnu ÍR 93:70 og svöruðu kalla stuðningsmanna sinna um að íslensku leikmennirnir yrðu að koma með meira framlag. Ágúst Orrason átti sinn besta leik í langan tíma og skoraði 23 stig og hlutfall útlendingatríósins var lægra en í síðustu leikjum.
Grindvíkingar áttu lítið í Tindastól á Króknum og töpuðu 106:88. Sigtryggur A. Björnsson skoraði 31 stig og Ingvi Þór Guðmundsson var með 21.
Stjarnan er í efta sæti deildarinnar með 18 stig, Keflavík og Tindastóll eru í 2.-3. sæti með 16 stig og Grindvíkingar eru í 8.-9. sæti með 10 stig.